Sergej Prokofíev: Fiðlukonsert nr. 2
Átján ár skilja að fyrsta og annan fiðlukonsert Sergejs Prokofíev (1891–1953). Sá fyrri var saminn árið 1917, ári áður en hann yfirgaf Rússland í kjölfar byltingarinnar. Þeim síðari lauk hann árið 1935, nokkrum mánuðum áður en hann sneri aftur til Moskvu. Prokofíev var fyrst og fremst píanisti og hljóðfærið laðaði fram ákveðna eiginleika í tónlist hans. Píanóverk hans eru oft hröð, vélræn og ómstríð, en í báðum fiðlukonsertunum kveður við annan tón. Seinni konsertinn er melódískur og ljóðrænn, enda var Prokofíev um þessar mundir að endurskoða tónsmíðastefnu sína og vildi leggja meiri áherslu á einfaldleika laglínunnar: „Tónlist okkar tíma á fyrst og fremst að vera lagræn, en þótt laglínan sé einföld og aðgengileg má hún ekki verða klisjukennd eða fyrirsjáanleg.“
Upphafsþátturinn hefst á dökku og dulúðlegu stefi í einleiksfiðlunni. Seinna aðalstef þáttarins heyrist nokkru seinna, og hafa sumir kallað það einhverja innblásnustu tónhugmynd sem tónskáldið fékk á ferli sínum. Þegar hápunkti er náð hljóma bæði stefin í einu, en þættinum lýkur með íhugulum tónum í hornum og plokkuðum strengjum. Annar þáttur hefst á fögru stefi einleiksfiðlunnar og stundum minnir dansblærinn á balletttónlistina við Rómeó og Júlíu, sem Prokofíev vann einmitt að um sama leyti.
Lokaþátturinn er kraftmikill og þar bregður fyrir hinum ýmsu stefjum og skapgerðum. Leikurinn verður sífellt æsilegri, og vart annað hægt en að hafa samúð með fiðluleikaranum Robert Soëtens, sem frumflutti konsertinn. Hann ritaði tónskáldinu mánuði fyrir tónleikana: „Ég hef áhyggjur af lokaþættinum. Hann er einfaldlega óspilandi í þessu tempói“. Vissulega gengur hér ýmislegt á. Slagverkshópurinn leikur fullmannaður í fyrsta sinn í verkinu, og hápunkti er náð þegar fiðluleikarinn rýkur upp í hæstu hæðir við ekkert annað en trommuslátt sér til halds og trausts. Strengjaplokk og slagverk kemur hlustandanum aftur niður á jörðina í tilþrifamiklum lokatöktunum.