EN

Sergej Prokofíev: Sinfónía nr. 1

„Klassíska“ sinfónían eftir Sergej Prokofíev (1891–1953) er eitt vinsælasta verk hans. Þó er hún ekki beinlínis dæmigerð fyrir tónskáldið sem var oft framsæknara í sköpun sinni en einmitt hér, en þess ber líka að geta að hún er æskuverk, samin þegar Prokofíev var á þrítugsaldr og enn að hasla sér völl í tónlistarlífinu. Sinfónía Prokofíevs er lykilverk í þróun þess sem síðar var kallað nýklassík, þegar tónskáld 20. aldar litu langt um öxl, framhjá tilfinningaþrungnu tónmálinu sem setti svip á tónlist kynslóðanna á undan. Sjálfur sagði hann: „Mér virtist að hefði Haydn verið uppi á okkar dögum hefði hann haldið í sinn eigin tónsmíðastíl en bætt einhverju nýju við. Það var sinfónía af þessu tagi sem mig langaði að semja – sinfónía í klassískum stíl.“ Sinfónían er sannarlega auðmeltari en þau stóru og framsæknu verk sem Prokofíev hafði samið árin á undan. Hann fer þó ekki að öllu eftir hinni klassísku forskrift. Til dæmis er þriðji þáttur ekki menúett eins og tíðkaðist í Vínarsinfóníum 18. aldar, heldur gavotta – sem er annars konar hirðdans, í tvískiptum takti en ekki þrískiptum.

Sinfónían markaði á sinn hátt tímamót á ferli Prokofíevs. Skömmu eftir að hann lauk við verkið braust út bylting í Rússlandi og þá hófst átján ára útlegð tónskáldsins í Frakklandi og Bandaríkjunum. Verkið var hið síðasta sem hann samdi í heimalandi sínu um langt skeið, og var það frumflutt undir stjórn höfundar í Sankti Pétursborg í apríl 1918.

Árni Heimir Ingólfsson