Prufuupptökur / „Demó“
Dagana 2. og 3. febrúar 2026 mun Sinfóníuhljómsveit Íslands standa fyrir „demó“-upptökum á íslenskum tónverkum, sem hafa ekki verið flutt áður af hljómsveitinni. Markmiðið er að gefa tónskáldum kost á kynningarefni sem hægt er að senda inn til verkefnavalsnefnda hljómsveita, með umsóknum og/eða öðru kynningarefni, en ekki til opinberrar birtingar.
Tónverkin sem koma til greina þurfa að vera skrifuð fyrir hljómsveit sem fer ekki yfir stærð Sinfóníuhljómsveitar Íslands: 3333-4331-timp-3 slv.-hrp-pno/cel-strengir. Því miður koma hvorki til greina einleikskonsertar né verk sem gera kröfur um hljóðtækni.
Lengd verkanna skal ekki fara yfir 10 - 15 mín., en í þeim tilfellum getur verið að einvörðungu hluti tónverksins verði hljóðritaður.
Verkefnavalsnefnd mun setja saman lista af innsendum verkum og leggja fyrir Evu Ollikainen, aðalstjórnanda og listrænan stjórnanda, en hún mun hafa lokaorðið um þau verkefni sem rata í upptökurnar.
Hvert tónskáld má skila allt að þremur hljómsveitarverkum, en aðeins eitt verk eftir hvert tónskáld kemur til greina.
Markmiðið er að hljóðrita um 60 mín. af tónlist þessa tvo daga. Vinsamlegast sendið fullbúnar raddskrár í pdf-sniði á Tryggva M. Baldvinsson, listrænan ráðgjafa hljómsveitarinnar á tryggvi.m.baldvinsson@sinfonia.is
Skilafrestur er til 21. september 2025. Eftir að tilkynnt hefur verið um þau verk sem valin eru til upptöku, er frestur til 18. nóvember 2025 að skila fullbúnum hljóðfæraröddum. Öll framleiðsla raddskrár og parta er á ábyrgð tónskáldanna sjálfra og ekki er greidd nótnaleiga vegna þessa verkefnis. Hljómsveitin mun fjölfalda raddskrár og parta eftir þörfum.