EN

Witold Lutosławski: Sinfónía nr.1

Sennilega eru það engar ýkjur að kalla Witold Lutosławski (1913–1994) merkasta tónskáld Pólverja síðan Szymanowski var og hét. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að raða Lutosławski beint á eftir Chopin í virðingarstiganum. Um það er að minnsta kosti ekki deilt að Lutosławski skipar sér í hóp merkustu tónskálda 20. aldar. Verk hans spönnuðu langt tímabil og hann nýtti sér fjölmarga stíla í tónsmíðum sínum.

Lutosławski sýndi snemma tónlistarhæfileika og hóf að nema á píanó aðeins sex ára gamall. Hann innritaðist í háskóla til þess að nema stærðfræði en skipti fljótlega yfir í píanóleik og tónsmíðar. Námið sóttist vel og árið 1936 útskrifaðist hann sem píanóleikari og ári síðar sem tónskáld. Kennari hans í tónsmíðum var Witold Maliszewski sem sjálfur hafði verið nemandi Nikolais Rimskíj-Korsakovs. Námið hvíldi því á gömlum merg. Lutosławski hugði á framhaldsnám í París en 1. september 1939 réðust Þjóðverjar inn í Pólland.

Lutosławski gegndi sjálfur herþjónustu í stríðinu og var tekinn höndum af Þjóðverjum. Honum tókst að sleppa og hélt fótgangandi af stað til Varsjár (um 400 km leið) þar sem hann bjó allt til stríðsloka. Lífið dró hann fram með því að leika á kaffihúsum, oft í félagi við vin sinn og kollega, Andrzej Panufnik.

Með valdatöku kommúnista í Póllandi voru listalífi settar miklar skorður, enda skyldu gilda sömu listrænu viðmið og í Moskvu. Lutosławski var þó kjörinn ritari og féhirðir Pólska tónskáldafélagsins árið 1945 en þegar árið 1947 var farið að þrengja að listamönnum sem ekki fylgdu flokkslínunni. Þá sagði Lutosławski sig úr stjórn tónskáldafélagsins en það var ekki nóg. Hann mátti enn fremur þola fordæmingu fyrir 1. sinfóníu sína (1941–1947) sem sögð var byggð á „formalisma“ en ekki sósíalískum realisma. Kvað svo fast að fordæmingunni að Lutosławski var rekinn úr tónskáldafélaginu og flutningur á sinfóníunni var bannaður. Það var ekki fyrr en eftir dauða Stalíns (1953) að Lutosławski hlaut aftur náð fyrir augum stjórnvalda en Konsert fyrir hljómsveit (1954) fékk góðar viðtökur, enda fetaði tónskáldið þar veginn á milli framúrstefnulegra tónsmíða og svo þeirra sem eru aðgengilegar almenningi.

Fyrsta sinfónían er í fjórum þáttum en sá fyrsti (Allegro giusto) hefst á hröðum og kraftmiklum inngangi. Annar þátturinn (Poco adagio) er lengsti kafli verksins, ljóðrænn og seiðandi og vex og dafnar uns hann nær hámarki laust eftir miðbikið. Þriðji þátturinn (Allegretto misterioso) er nokkurs konar Scherzo sem hefst á stefi í tólftónahætti. Lokaþátturinn (Allegretto vivace) hefst af krafti og æðir áfram uns yfir lýkur.