EN

Wolfgang Amadeus Mozart: Sinfónía nr. 40

Það var þann 25. júlí 1788 að Wolfgang Amadeus Mozart (1756–1791) setti punktinn aftan við fertugustu sinfóníu sína. Hann var í kröggum og hafði þetta vor og sumar puðrað út tónverkum í von um að rétta við fjárhaginn. Hann lét sig meðal annars hafa að semja heilar þrjár sinfóníur á um það bil þremur mánuðum og urðu þær hans síðustu verk af því tagi. Sinfóníurnar ætlaði hann að láta flytja á áskriftartónleikum í Vínarborg þetta sumar en óvíst er að nokkuð hafi orðið af þeim. Þótt hraðinn í tónsmíðunum væri mikill kom það hvergi niður á gæðunum. Mozart hafði eflst jafnt og þétt sem tónskáld, ekki síst eftir að hann fluttist til Vínar 1781. Hann skaraði fram úr öðrum að frumleika og fimi, reyndi á mörk þekktra tónsmíðaaðferða og glæddi hefðbundin form nýju lífi. Síðustu sinfóníurnar þrjár, nr. 39, 40 og 41, þykja allar meðal bestu verka hans.

Sinfónían í g-moll hefst á hröðum þætti sem sækir ýmislegt til dramatískra aría hinnar ítölsku óperuhefðar og minnir á að Mozart hafði, þegar þarna var komið sögu, haslað sér eftirminnilega völl á því sviði. Strengirnir leika órólegt upphafsstef með hálftónsbilum í ætt við andvörp. Það leiðir yfir í síðara stefið (í dúr) og blásturshljóðfæri bætast við. Síðan tekur við úrvinnslukafli þar sem upphafsmótífið þræðir sig í gegnum ýmsar tóntegundir og loks er síðara stefið ítrekað í moll áður en þátturinn rennur sitt skeið. Hægi þátturinn hefst rólega en vefur hans þykknar með ómstríðri spennu sem þéttist og slaknar á víxl og í þriðja þætti snýr Mozart hinum settlega hirðdansi, menúettinum, upp í talsvert æsilegri dans með rólegra millitríói. Í lokaþættinum stillir tónskáldið sig um að búa sinfóníunni sólríkan endi. Fyrra aðalstefið er í upphafstóntegundinni g-moll, hið síðara færir okkur yfir í B-dúr áður en hin virtúósíska úrvinnsla hefst. Hún er á köflum ófyrirsjáanleg en endar í fjörugum fugato-leik áður en botninn er sleginn í þetta ástríðuþrungna verk.

Svanhildur Óskarsdóttir

Tónlistin á Íslandi
Sinfónía nr. 40 var fyrsta sinfónía Mozarts sem hljómaði á tónleikum á Íslandi, í flutningi Fílharmóníusveitar Hamborgar undir stjórn Jóns Leifs árið 1926. Hin nýstofnaða Sinfóníuhljómsveit Íslands lék sinfóníuna svo á tónleikum í Þjóðleikhúsinu þann 18. maí 1950 sem Róbert A. Ottósson stjórnaði. Áheyrendur fögnuðu flutningnum svo ákaft að hljómsveitin varð að endurtaka 3. þátt verksins. SÍ hefur leikið verkið oft síðan og stjórnendur hafa meðal annars verið Vladimir Ashkenazy (1974), Jean-Pierre Jacquillat (1977), Peter Maxwell Davies (1992), Philippe Entremont (2001) og Matthew Halls (2009). Sinfónían var leikin af Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í Glerárkirkju árið 2003 undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar og í Hofi 2016 þegar Daníel Bjarnason hélt um tónsprotann.