EN

Starfsárið 2019/20

70 ára afmælisár Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Sinfóníuhljómsveit Íslands fagnar 70 ára starfsári sínu með glæsilegu starfsári sem einkennist af metnaði og stórhug.

Meðal hápunkta starfsársins 2019/20

Sinfónía nr. 1 eftir Mahler með Evu Ollikainen, Píanókonsert nr. 2 eftir Brahms fluttur af Stephen Hough, Píanókonsert Daníels Bjarnasonar, Processions, með Víkingi Heiðari, Valkyrjan eftir Wagner í samstarfi við Íslensku óperuna á Listahátíð og Mozart-tónleikar með Hallveigu Rúnarsdóttur.

Einleikarar og einsöngvarar á heimsmælikvarða

Píanóleikararnir Víkingur Heiðar Ólafsson, Jean-Efflam Bavouzet, Stephen Hough og Olga Kern; fiðluleikararnir Augustin Hadelich, Vadim Gluzman, Benjamin Beilman, Baiba Skride og Erin Keefe, víóluleikarinn Nils Mönkemeyer, sellóleikararnir Alysa Weilerstein og Sæunn Þorsteinsdóttir; klarínettleikarinn Dimitri Þór Ashkenazy, hornleikararnir Stefán Jón Bernharðsson og Radovan Vlatković, söngvararnir Michelle DeYoung, Hallveig Rúnarsdóttir, Garðar Thor Cortes, Jóna G. Kolbrúnardóttir, Christine Goerke, Jamie Barton og margir fleiri.

Hljómsveitarstjórar í fremstu röð

Eva Ollikainen, Osmo Vänskä, Hannu Lintu, Pietari Inkinen, Rafael Payare, Alexander Vedernikov, Matthew Halls, Jonathan Cohen, Han-Na Chang, Karina Canellakis, Maxim Emelyanychev, Daníel Bjarnason, Antonio Méndez, Olari Elts og Yan Pascal Tortelier eru meðal þeirra framúrskarandi hljómsveitarstjóra sem stjórna áskriftartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands starfsárið 2019–20.

Fjölbreytt íslensk tónlist

Frumflutt verk eftir Svein Lúðvík Björnsson, Snorra Sigfús Birgisson, Huga Guðmundsson, Eygló Höskuldsdóttur Viborg og Sigurð Árna Jónsson. Einnig leikin verk eftir Önnu Þorvaldsdóttur, Báru Gísladóttur, Daníel Bjarnason, Pál Ragnar Pálsson, Atla Heimi Sveinsson, Jón Leifs og Pál Ísólfsson.

Anna Þorvaldsdóttir staðartónskáld

Hið magnaða tónverk Aeriality eftir Önnu Þorvaldsdóttur verður flutt á 14 tónleikum á starfsárinu, á Íslandi, í Þýskalandi, Austurríki, Englandi, Wales og Skotlandi. Ný tónsmíð Önnu, AIŌN, klukkustundarlangt verk fyrir dansara og sinfóníuhljómsveit, verður frumflutt á Íslandi í samstarfi við Íslenska dansflokkinn í apríl 2020, en verkið hljómar fyrst á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar í Gautaborg vorið 2019.

Kventónskáld og -stjórnendur

Hljómsveitarstjórarnir Karina Canellakis, Han-Na Chang, Eva Ollikainen, Anna-Maria Helsing, Michelle Merrill og Marit Strindlund. Tónverk eftir 16 kventónskáld: Önnu Þorvaldsdóttur, Báru Gísladóttur, Eygló Höskuldsdóttur Viborg, Jórunni Viðar, Önnu Amaliu af Braunschweig-Wolfenbüttel, Mariu Antoniu Walpurgis, Mélanie Bonis, Amy Beach, Ethel Smyth, Lili Boulanger, Grazynu Bacewicz, Sofiu Gubaidulinu, Jennifer Higdon, Theu Musgrave, Önnu Clyne og Missy Mazzoli.

Rakhmanínov og Gubaidulina

Þrennir tónleikar þar sem verkum þessara tveggja meistara er teflt saman: kammertónlist, einleikskonsertum og sinfónískum verkum. Meðal annars hljóma Sinfónía nr. 2 eftir Rakhmanínov (stjórnandi Antonio Méndez) og fiðlukonsertinn Offertorium eftir Gubaidulinu (einleikari Vadim Gluzman).

Bjarni Frímann Bjarnason aðstoðarhljómsveitarstjóri

Bjarni Frímann stjórnar fjölda tónleika á sínu fyrsta heila starfsári sem aðstoðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands: hinum árlegu jóla- og Vínartónleikum, tónleikum á Menningarnótt, verkum fyrir strengjasveit eftir Schönberg og Bartók, rússneskri veislu með tónlist eftir Rakhmanínov, Tsjajkovskíj og Stravinskíj, og fjölskyldutónleikum þar sem Svanavatnið og Dimmalimm verða á efnisskránni.

Öflugt fræðslustarf

Fernir fjölskyldutónleikar í Litla tónsprotanum: Eftirlætis söngvar úr Dýrunum í Hálsaskógi og Kardimommubænum eftir Torbjörn Egner, Tímaflakk í tónheimum, Svanavatnið, Dimmalimm, og hinir árlegu jólatónleikar fyrir alla fjölskylduna. Einnig eru haldnar barnastundir fyrir yngstu kynslóðina og skólatónleikar fyrir öll skólastig.

Tvær tónleikaferðir

Í tilefni af 70 ára afmæli hljómsveitarinnar er haldið í tónleikaferðir bæði innanlands og utan. Í nóvember 2019 verður farið í tónleikaferð til Þýskalands og Austurríkis og haldnir fimm tónleikar í München, Salzburg og Berlín, með hljómsveitarstjóranum Daníel Bjarnasyni og Víkingi Heiðari Ólafssyni og Radovan Vlatković. Einnig verður farið í tónleikaferð til Bretlands í febrúar 2020 og tónleikar haldnir m.a. í Lundúnum, Birmingham, Cardiff, Leeds og Edinborg. Einnig heldur Sinfóníuhljómsveit Íslands tónleika á landsbyggðinni, á Ísafirði og í Reykjanesbæ í september 2019.

Ungsveit Sinfóníunnar 10 ára

Hátíðartónleikar í tilefni af 10 ára afmæli Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands þar sem flutt verður Níunda sinfónía Beethovens ásamt fjórum ungum íslenskum einsöngvurum. Einnig syngja Kór Menntaskólans við Hamrahlíð, Kór Flensborgarskóla, Flensborgarkórinn, Kór tónlistardeildar Listaháskóla Íslands og Graduale Nobili. Stjórnandi er Daniel Raiskin.