EN

Daníel Bjarnason

Aðalgestastjórnandi

Daníel Bjarnason hefur var ráðinn aðalgestastjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands til tveggja ára og hefst ráðning hans í september 2019. Hann mun stjórna hljómsveitinni á þrennum tónleikum í Eldborg á næsta starfsári og mun einnig stjórna hljómsveitinni á tónleikaferðalagi hennar til Þýskalands og Austurríkis í nóvember 2019.

Daníel Bjarnason stundaði nám við Tónlistarskóla FÍH og Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi árið 2003. Hann stundaði framhaldsnám í hljómsveitarstjórn við Tónlistarháskólann í Freiburg í Þýskalandi og lauk þaðan prófi með hæstu einkunn. Daníel hefur unnið með og fengið verk sín flutt af fjölda hljómsveita og má þar nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands, Fílharmóníuhljómsveitirnar í Los Angeles og New York, Sinfóníuhljómsveitirnar í Toronto, Winnipeg, Melbourne og Adelaide, Sinfóníuhljómsveit BBC í Skotlandi, Residentie-hljómsveitina, Ulster-hljómsveitina, Britten-sinfóníuna og Sinfóníettuna í Kraká. Hann hefur gefið út fjórar plötur hjá plötufyrirtækinu Bedroom Community, Processions (2010), Solaris (2012), Over Light Earth (2013) og Collider (2018).

Meðal nýlegra stórra verka Daníels má nefna óperuna Brothers sem sýnd var á Íslandi á Listahátíð í Reykjavík í júní 2018, og nýjan fiðlukonsert sem pantaður var af Fílharmóníusveit Los Angeles og Sinfóníuhljómsveit Íslands, og frumfluttur af Pekka Kuusisto og fyrrnefndu sveitinni undir stjórn Gustavos Dudamel í Hollywood Bowl. Hann vinnur nú meðal annars að nýju verki fyrir Fílharmóníusveit Los Angeles sem verður frumflutt á 100 ára afmælistónleikum hennar í nóvember 2019 og er samið fyrir þrjá hljómsveitarstjóra: Zubin Mehta, Esa-Pekka Salonen og Gustavo Dudamel. Daníel hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín og hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin í janúar 2019.

Daníel var á árunum 2015–2018 staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands og starfar áfram reglubundið með hljómsveitinni.