EN

Daníel Bjarnason

Aðalgestastjórnandi

Daníel Bjarnason tók við stöðu aðalgestastjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands haustið 2019 og var á árunum 2015–2018 staðarlistamaður hljómsveitarinnar. Daníel Bjarnason, sem er löngu orðinn landskunnur fyrir tónsmíðar sínar og hljómsveitarstjórn og hlaut ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands tilnefningu til hinna virtu Grammy-verðlauna árið 2020.

Daníel Bjarnason stundaði nám við Tónlistarskóla FÍH og Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi árið 2003. Hann stundaði framhaldsnám í hljómsveitarstjórn við Tónlistarháskólann í Freiburg í Þýskalandi frá 2004–2007 og lauk þaðan prófi með hæstu einkunn.

Daníel hefur unnið með og fengið verk sín flutt af fjölda hljómsveita og má þar nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands, Fílharmóníusveitirnar í Los Angeles og New York, Sinfóníuhljómsveitirnar í Toronto, Winnipeg, Melbourne og Adelaide, Sinfóníuhljómsveit BBC í Skotlandi, Residentie-hljómsveitina, Ulster-hljómsveitina, Britten-sinfóníuna og Sinfóníettuna í Kraká. Hann hefur gefið út þrjá hljómdiska hjá plötufyrirtækinu Bedroom Community, Processions (2010), Solaris (2012) og Over Light Earth (2013).

Meðal helstu verka Daníels eru óperan Brothers sem m.a. var sýnd á Listahátíð í Reykjavík við mikla hrifningu, og fiðlukonsert sem var pantaður af Fílharmóníusveit Los Angeles og Sinfóníuhljómsveit Íslands, og frumfluttur af Pekka Kuusisto og fyrrnefndu sveitinni undir stjórn Gustavos Dudamel í Hollywood Bowl. Nýjasta verk Daníels er samið fyrir Fílharmóníusveit Los Angeles í tilefni af 100 ára afmæli hennar og var það frumflutt á afmælistónleikum hennar í október síðastliðnum.