EN

Tónleikaferð til Þýskalands og Austurríkis

Fylgstu með #IcelandSymphonOnTour

Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur í tónleikaferð til Þýskalands og Austurríkis í nóvember 2019 undir stjórn hljómsveitarstjórans Daníels Bjarnasonar. Tónleikasalirnir eru með þeim fremstu í viðkomandi löndum: Großes Festspielhaus í Salzburg, Konzerthaus í Berlín og Herkulessaal í München. Einleikarar verða Víkingur Heiðar Ólafsson, sem er staðarlistamaður í Konzerthaus, og króatíski hornleikarinn Radovan Vlatković sem er tvímælalaust fremsti hornleikari samtímans.

Lagalisti með verkunum sem Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur í tónleikaferðinni

Tvö íslensk tónverk verða í lykilhlutverki í tónleikaferðinni. Aeriality eftir Önnu Þorvaldsdóttur er á góðri leið með að verða eitt mest flutta íslenska hljómsveitarverk síðari áratuga. Það hefur meðal annars hljómað í Elbphilharmonie í Hamborg, Royal Festival Hall í Lundúnum og Symphony Hall í Boston; gagnrýnendur erlendra blaða kalla það „meistaraverk“ og það er meðal efnis á portrettdiski Önnu sem Deutsche Grammophon gaf út. Píanókonsert Daníels Bjarnasonar, Processions, var frumfluttur á Myrkum músíkdögum í Háskólabíói árið 2009. „Tónleikagestir svifu út með nýja trú á framtíðina“ skrifar Guðrún Nordal um þessa tónleika í nýrri bók sinni, Skiptidagar. Í kjölfarið hefur konsertinn hljómað víða um heim og hlotið frábæra dóma heimspressunnar.

Sinfóníuhljómsveit Íslands frumflutti Aeriality
eftir Önnu Þorvaldsdóttur í Hörpu árið 2011

 

Daníel Bjarnason, hljómsveitarstjóri

Daníel Bjarnason tók við stöðu aðalgestastjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands haustið 2019 og var á árunum 2015–2018 staðarlistamaður hljómsveitarinnar. Daníel mun stjórna hljómsveitinni á þrennum tónleikum í Eldborg á starfsárinu 2019/20 og mun einnig stjórna hljómsveitinni á tónleikaferðalagi hennar til Þýskalands og Austurríkis í nóvember 2019.

Daníel Bjarnason stundaði nám við Tónlistarskóla FÍH og Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi árið 2003. Hann stundaði framhaldsnám í hljómsveitarstjórn við Tónlistarháskólann í Freiburg í Þýskalandi frá 2004–2007 og lauk þaðan prófi með hæstu einkunn.

Daníel hefur unnið með og fengið verk sín flutt af fjölda hljómsveita og má þar nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands, Fílharmóníusveitirnar í Los Angeles og New York, Sinfóníuhljómsveitirnar í Toronto, Winnipeg, Melbourne og Adelaide, Sinfóníuhljómsveit BBC í Skotlandi, Residentie-hljómsveitina, Ulster-hljómsveitina, Britten-sinfóníuna og Sinfóníettuna í Kraká. Hann hefur gefið út þrjá hljómdiska hjá plötufyrirtækinu Bedroom Community, Processions (2010), Solaris (2012) og Over Light Earth (2013).

Meðal helstu verka Daníels eru óperan Brothers sem m.a. var sýnd á Listahátíð í Reykjavík við mikla hrifningu, og fiðlukonsert sem var pantaður af Fílharmóníusveit Los Angeles og Sinfóníuhljómsveit Íslands, og frumfluttur af Pekka Kuusisto og fyrrnefndu sveitinni undir stjórn Gustavos Dudamel í Hollywood Bowl. Nýjasta verk Daníels er samið fyrir Fílharmóníusveit Los Angeles í tilefni af 100 ára afmæli hennar og var það frumflutt á afmælistónleikum hennar í október síðastliðnum.

Víkingur Heiðar Ólafsson, einleikari

Víkingur Heiðar Ólafsson er meðal eftirsóttustu einleikara sinnar kynslóðar. Hann var nýverið útnefndur listamaður ársins á Gramophone-verðlaununum, auk þess sem plata hans með verkum eftir Johann Sebastian Bach hlaut aðalverðlaun BBC Music Magazineverðlaunanna í apríl síðastliðnum. Þá hlaut hann einnig Íslensku tónlistarverðlaunin og þýsku tónlistarverðlaunin Opus Klassik á þessu ári.

Á komandi tónleikaárum mun Víkingur gegna stöðu staðarlistamanns við nokkur helstu tónlistarhús heims. Sem staðarlistamaður Konzerthaus í Berlín heldur hann 14 tónleika í vetur og næsta starfsár gegnir hann sömu stöðu hjá Southbank Centre í London.

Víkingur heldur opnunartónleika Listahátíðar í Reykjavík 2020 þar sem hann mun leika einstaka efnisskrá af nýrri einleiksplötu sem kemur út hjá Deutsche Grammophon á vormánuðum. Á fyrri hluta tónleikanna vefur hann saman hljómborðsverkum Claude Debussy og Jean-Philippe Rameau og flytur að lokum eitt helsta meistaraverk rússneskra tónbókmennta, Myndir á sýningu eftir Modest Músorgskíj, í mikilfenglegri umritun eftir Vladimir Horowitz.

Radovan Vlatković, einleikari

Króatíski hornleikarinn Radovan Vlatković er einn virtasti hornleikari samtímans. Hann lærði við Tónlistarháskólann í Zagreb og síðar í Detmold í Þýskalandi, og hlaut fyrstu verðlaun í ýmsum keppnum, meðal annars ARD-keppninni árið 1983. Hann var fyrsti hornleikari Útvarpshljómsveitarinnar í Berlín á árunum 1982–1990, undir stjórn aðalstjórnendanna Riccardos Chailly og Vladimirs Ashkenazy. Síðan 1992 hefur hann verið prófessor í hornleik við Tónlistarháskólann í Stuttgart, og frá árinu 1998 prófessor við Mozarteum-tónlistarháskólann í Salzburg.

Vlatković hefur komið fram sem einleikari með fjölda virtra hljómsveita. Þar má nefna Bæversku sinfóníuhljómsveitina, Sinfóníuhljómsveitina í Birmingham, Academy of Saint-Martin-in-the-Fields, Camerata Academica Salzburg og Kammersveitina í München. Hann kemur reglulega fram með tónlistarmönnunum András Schiff og Heinz Holliger auk þess sem hann er tíður getur á Lockenhaus-, Marlboro- og Mondsee-tónlistarhátíðunum. Hann hefur frumflutt ótal verk samtímatónskálda, m.a. eftir Elliott Carter, Krzysztof Penderecki og Sofiu Gubaidulinu. Hann hefur hljóðritað fjölda konserta auk kammertónlistar, meðal annars fyrir EMI, Decca, Philips og Deutsche Grammophon, og hefur hlotið verðlaun þýskra tónlistargagnrýnenda fyrir nokkra diska sína.

Anna Þorvaldsdóttir, tónskáld

Anna Þorvaldsdóttir var útnefnd staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands í byrjun árs 2018. Hlutverk Önnu er margþætt: Hún mun semja ný tónverk fyrir hljómsveitina, auk þess sem hljómsveitin mun flytja önnur nýleg verk Önnu, meðal annars hljómsveitarverkið Metacosmos sem Fílharmóníuhljómsveit New York-borgar frumflutti undir stjórn Esa-Pekka Salonen í apríl 2018. Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar ásamt Íslenska dansflokknum pöntuðu nýtt verk eftir Önnu Þorvaldsdóttur og Ernu Ómarsdóttur danshöfund. Verkið, sem nefnist AIŌN, var frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar og Íslenska dansflokknum í maí 2019 og hlaut frábærar viðtökur. Sinfóníuhljómsveit Íslands flytur verkið með Íslenska dansflokknum í Hörpu þann 1. apríl 2020. Sinfóníuhljómsveit Íslands mun einnig hljóðrita verkið fyrir bandaríska forlagið Sono Luminus, en nýr hljómdiskur hljómsveitarinnar þar sem m.a. var að finna verk eftir Önnu hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda. Anna mun einnig eiga sæti í verkefnavalsnefnd Sinfóníuhljómsveitarinnar og vera í forsvari fyrir tónskáldastofuna Yrkju, sem er samstarfsverkefni Sinfóníunnar og Íslenskrar tónverkamiðstöðvar og miðar að því að veita ungum tónskáldum reynslu í að semja fyrir sinfóníuhljómsveit.

Anna Þorvaldsdóttir er eitt virtasta tónskáld samtímans og hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir tónlist sína. Verk hennar eru flutt reglulega víðsvegar um heim og hafa hljómað á tónleikastöðum og hátíðum eins og Mostly Mozart-hátíðinni í New York, í Walt Disney Hall í Los Angeles og í Kennedy Center í Washington D.C. Anna var handhafi Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2012, hlaut verðlaunin Kravis Emerging Composer Prize frá Fílharmóníuhljómsveitinni í New York 2015, og fyrr á þessu ári hlaut hún tvenn verðlaun frá Lincoln Center: Emerging Artist Award og The Martin E. Segal Award.

Meðal þeirra sem hafa leikið verk Önnu má nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands, International Contemporary Ensemble (ICE), New York Philharmonic, Los Angeles Philharmonic, Ensemble Intercontemporain, NDR Elbphilharmonie, Bang on a Can All-Stars, The Crossing, Oslo Philharmonic, og Royal Stockholm Philharmonic. Fyrsta portrait plata Önnu – Rhízōma – kom út hjá bandaríska útgáfufyrirtækinu Innova Recordings haustið 2011 og hlaut afar góðar viðtökur og dóma, en platan var meðal annars valin á lista yfir bestu plötur ársins 2011 hjá tímaritunum TimeOut New York og TimeOut Chicago. Önnur portrait plata Önnu – Aerial – kom út hjá Deutsche Grammophon í nóvember 2014 og var valin á fjölda lista yfir bestu plötur ársins, til að mynda hjá The New Yorker Magazine, Boston Globe, iTunes Classical, og hjá klassísku útvarpsstöðinni WQXR/Q2. Þriðja portrait plata Önnu – In the Light of Air – kom út árið 2015 í útgáfu bandarísku útgáfunnar Sono Luminus í flutningi International Contemporary Ensemble. Platan hlaut afar góðar viðtökur og dóma og var meðal annars valin á lista yfir bestu plötur ársins hjá Alex Ross hjá The New Yorker, á bandarísku útvarpsstöðinni NPR, Boston Globe, og hjá The New York Times.