EN

Grosvenor spilar Beethoven

Athugið: Starfsárið 2020/21 er birt með fyrirvara um breytingar. Miðasala hefst síðar.
Dagsetning Staðsetning Verð
19. nóv. 2020 » 19:30 - 21:30 Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr. Miðasala ekki hafin

Á þessum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands hljóma tvö meistaraverk Beethovens ásamt frábærri tónsmíð Önnu Þovaldsdóttur, staðartónskálds hljómsveitarinnar. Einleikari í píanókonserti nr. 1 eftir Beethoven er Benjamin Gosvenor en hann hefur fest sig í sessi sem einn áhugaverðasti píanisti Bretlands þrátt fyrir að vera aðeins 28 ára gamall. Hann var yngsti einleikarinn til að hafa komið fram á opnunartónleikum BBC Proms-tónlistarhátíðarinnar 2011 og ári síðar hlaut hann tvenn Gramophone-verðlaun. „Leikur Grosvenors fær mann til að andvarpa af gleði“, ritaði gagnrýnandi The New York Times. Píanóaðdáendur geta sannarlega glaðst yfir því að þessi ungi meistari skuli koma fram á Íslandi í fyrsta sinn.

David Danzmayr er aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Zagreb og hefur vakið mikla hrifningu á fyrri tónleikum sínum með Sinfóníuhljómsveit Íslands. 

Danzmayr þekkir tónlist Beethovens út og inn enda sjálfur Austurríkismaður og hlaut menntun sína við Mozarteum-tónlistarháskólann í Salzburg. Gagnrýnendur lofa hann í hástert og nýverið sagði einn slíkur í bandarísku dagblaði að hljómsveitarstjórn Danzmayrs væri „listrænt óaðfinnanleg og svo æsispennandi að maður fékk gæsahúð“.

Tónleikarnir hefjast á Metacosmos eftir Önnu Þorvaldsdóttur, en það hefur farið sigurför um heiminn frá því það hljómaði fyrst á tónleikum Fílharmóníusveitarinnar í New York árið 2018. Síðan hefur það meðal annars verið flutt af Berlínarfílharmóníunni og á Proms-tónlistarhátíðinni í Royal Albert Hall, og The New York Times valdi hljóðritun Sinfóníuhljómsveitar Íslands á verkinu eina af bestu útgáfum ársins 2019.