EN

Hlustunarklefi Sinfóníunnar

Hlustaðu á upptökur hljómsveitarinnar í hringóma hljóðkerfi í Hörpu

Dagsetning Staðsetning Verð
30. jan. 2020 » 10:00 - 22:00 Stemma | Harpa Aðgangur ókeypis
31. jan. 2020 » 10:00 - 22:00 Stemma | Harpa Aðgangur ókeypis
1. feb. 2020 » 10:00 - 22:00 Stemma | Harpa Aðgangur ókeypis
 • Tónverk

  Anna Þorvaldsdóttir Metacosmos og Dreaming
  Daníel Bjarnason Emergence
  Haukur Tómasson Píanókonsert nr. 2
  Hlynur Aðils Vilmarsson BD
  María Huld Markan Sigfúsdóttir Oceans og Aequora
  Páll Ragnar Pálsson Quake
  Þuríður Jónsdóttir Flow & Fusion

 • Hlustunarklefi Sinfóníunnar

  Diskarnir Recurrence og Concurrence hafa hlotið lofsama gagnrýni. Nú gefst gestum í fyrsta sinn tækifæri til þess að heyra upptökurnar í hringóma hljóðkerfi þar sem upptökurnar njóta sín til fulls

Sinfóníuhljómsveit Íslands býður upp á opið hlustunarrými í Stemmu í Hörpu þar sem hægt er að hlusta á upptökur hljómsveitarinnar af íslenskum hljómsveitarverkum. Upptökurnar komu nýlega út á diskunum Concurrence og Recurrence hjá bandaríska útgáfufyrirtækinu Sono Luminus. Plöturnar eru teknar upp í hringómi (e. surround sound) og í upptökunum var ný uppstilling á hljómsveitinni sérstaklega valin fyrir hvert verk sem best hentaði hljóðheimi þess. Upplifunin verður því sérlega áhrifarík þar sem tónlistin er tekin upp í einskonar þrívídd svo að hlustandinn heyrir tónlistina allt um kring. Hljómsveitarstjóri í upptökunum var Daníel Bjarnason, upptökustjóri var Grammy-verðlaunahafinn Daniel Shores og hljóðmeistari var Dan Merceruio.

Plöturnar hafa hlotið mikið lof gagnrýnenda. Concurrence, sem kom út í nóvember síðastliðnum, var m.a. valin ein af bestu útgáfum ársins hjá The New York Times, NPR og Second Inversion sem ein af bestu útgáfum ársins 2019. Á plötunni má heyra Metacosmos eftir Önnu Þorvaldsdóttur, píanókonsert nr. 2 eftir Hauk Tómasson með píanóleikaranum Víkingi Heiðari Ólafssyni, Oceans eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttir og Quake eftir Pál Ragnar Pálsson með sellóleikaranum Sæunni Þorsteinsdóttur.

Fyrsti diskurinn í röðinni, Recurrence, var valinn plata ársins í sigildri tónlist á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2019 en diskurinn inniheldur Flow and Fusion eftir Þuríði Jónsdóttur, BD eftir Hlyn Aðils Vilmarsson, Aequora eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur, Emergence eftir Daníel Bjarnason og Dreaming eftir Önnu Þorvaldsdóttur. Þriðji diskurinn í röðinni kemur út síðla árs 2020 en á honum verða verk eftir Daníel Bjarnason, Þuríði Jónsdóttur, Veronique Vöku og Magnús Blöndal Jóhannsson.

Diskarnir eru gefnir út í tvöfaldri útgáfu, annar diskurinn er hefðbundinn geisladiskur en hinn er Blu-ray diskur með hringóma útgáfunni. Diskarnir fást í plötuverslunum landsins og verða einnig fáanlegir í Epal í Hörpu á meðan tónleikahátíðin Myrkir músíkdagar stendur yfir. 

Hlustunarklefinn er í fundaherberginu Stemmu á fyrstu hæð Hörpu. Klefinn er opinn frá 10:00 til 22:00 frá fimmtudeginum 30. janúar til laugardagsins 1. febrúar. Nýttu tækifærið og hlustaðu á það nýjasta í íslenskri hljómsveitartónlist í hringóma hljóðkerfi þar sem upptökurnar njóta sín til fulls.