EN

Agnes Thorsteins

Einsöngvari

Að loknu námi í söng og píanóleik við Tónlistarskóla Garðabæjar hélt Agnes Thorsteins til Vínarborgar, þar sem hún nam við Universität f r Musik und darstellende Kunst og útskrifaðist með BA­gráðu vorið 2016. Hún tók sér hlé frá meistaranámi er henni bauðst atvinnusamningur við óperuhúsin í Krefeld og Mönchengladbach og í tvö ár starfaði hún við Óperustúdíó Niederrhein. Þar söng hún meðal annars hlutverk Orfeusar í Orfeo ed Euridice, Hans í Hans og Grétu og Lolu í Cavalleria Rusticana. Meðal annarra hlutverka má nefna Marcellinu og Cherubino í Brúðkaupi Fígarós, Sesto í La clemenza di Tito, Carmen í samnefndri óperu og Grímu í Þrymskviðu Jóns Ásgeirssonar. Í september 2016 kom hún fram sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Agnes hefur hlotið fjölda viðurkenninga og styrkja, til dæmis Grand Prix­verðlaun í þriðju alþjóðlegu tónlistarkeppninni á Kýpur 2015 og Bayreuth­styrk Wagnerfélagsins á Íslandi 2018, auk þess sem hún komst í undanúrslit í Belvedere­keppninni og í úrslit í söngkeppni sem kennd er við Antoninu Campi. Auk fjölda verkefna erlendis á næstu misserum mun Agnes taka þátt í flutningi Die Walküre eftir Richard Wagner á Listahátíð í Reykjavík í maí 2020.