EN

Agnes Thorsteins

Einsöngvari

Agnes Thorsteins stundaði nám í söng og píanóleik við Tónlistarskóla Garðabæjar og nam við Universität für Musik und darstellende Kunst, þaðan sem hún útskrifaðist með BA-gráðu með láði vorið 2016. Hún tók sér hlé frá Mastersnámi er hún fékk atvinnusamning við óperuhúsin Krefeld og Mönchengladbach og í tvö ár starfaði hún við Óperustúdíó Niederrhein. Þar söng hún m.a. Orfeo úr Orfeo og Evridís, Hans úr Hans og Grétu og Lola úr Cavalleria Rusticana. Meðal annarra hlutverka má telja Marcellinu og Cherubino úr Brúðkaupi Fígarós, Sesto úr La clemenza di Tito, Carmen úr samnefndri óperu og Grímu úr Þrymskviðu Jóns Ásgeirssonar. Í september 2016 kom hún fram sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Agnes hefur hlotið fjölda viðurkenninga og styrkja, t.d. Grand Prix verðlaun í þriðju alþjóðlegu tónlistarkeppninni á Kýpur 2015, undanúrslit í Hans Gabor Belvedere-keppni, úrslit í International Vocal Competition Antonina Campi og Bayreuth-styrkinn frá Wagnerfélagi Íslands 2018. Ásamt fjölda verkefna erlendis, tekur Agnes þátt í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Íslensku óperunnar á Die Walküre eftir Richard Wagner á Listahátíð Reykjavíkur 2020.