EN

Alisa Weilerstein

Sellóleikari

Bandaríski sellóleikarinn Alisa Weilerstein hefur um árabil verið í hópi fremstu sellista heims. Hún er fædd árið 1982 og eru báðir foreldrar hennar tónlistarmenn. Á unga aldri hreifst hún af sellóinu og hóf sellónám fjögurra ára gömul. Weilerstein hlaut hin eftirsóttu MacArthur verðlaun árið 2011 fyrir að sameina „ástríðufullan tónlistarflutning og tæknilega fullkomnun“, eins og dómnefndin orðaði það. Þeirri ákvörðun var meðal annars fagnað í New York Times, þar sem hún var kölluð „tónlistarkona með sannar hugsjónir“.

Nýverið kom út geisladiskurinn Transfigured Night, þar sem Weilerstein leikur verk eftir Haydn og Schönberg ásamt Þrándheimssólistunum. Hún hefur nýverið leikið sellókonsert nr. 2 (sem einnig hljómar á tónleikum hennar á Íslandi) með Fílharmóníusveit Gautaborgar og Sinfóníuhljómsveitinni í Toronto, auk þess að leika með Tékknesku fílharmóníunni og Semyon Bychkov á tónleikaferð þeirra um Bandaríkin. Þá lék hún allar sellósvítur Bachs á tónleikum meðal annars í Boston og í Elbphilharmonie í Hamborg.

Meðal hljómdiska sem Weilerstein hefur leikið inn á má nefna sellókonserta eftir Elgar og Elliott Carter ásamt Daniel Barenboim og Staatskapelle Berlin sem BBC Music Magazine valdi hljóðritun ársins 2013. Árið 2016 kom út diskur þar sem hún flytur báða sellókonserta Shostakovitsj með Bæversku útvarpshljómsveitinni undir stjórn Pablo Heras-Casado.

Weilerstein hefur leikið með öllum fremstu hljómsveitum í Evrópu og Bandaríkjunum og meðal helstu samverkamanna hennar má nefna Marin Alsop, Bernard Haitink, Lorin Maazel, Ludovic Morlot og Zubin Mehta. Hún hefur leikið í Hvíta húsinu að beiðni Michelle Obama og leikið einleik í tónleikaferð um Venesúela ásamt Gustavo Dudamel og Simón Bolívar-sinfóníuhljómsveitinni.

Þetta er í fyrsta sinn sem Alisa Weilerstein leikur með Sinfóníuhljómsveit Íslands, en bróðir hennar, Joshua, stjórnaði hljómsveitinni árið 2018.