EN

Andreas Borregaard

Harmóníkuleikari

Andreas Borregaard kemur frá Danmörku. Hann nam fyrst við danska tónlistarháskóla, lauk diplómaprófi frá Konunglega danska tónlistarháskólanum árið 2006 og einleiksprófi árið 2010. Hann nam einnig við Guildhall School of Music and Drama í London og varð árið 2008 fyrstur til að ljúka gráðu í harmóníkuleik frá þeim háskóla. Hann hefur frá 2014 sótt einkatíma hjá Mitzi Meyerson sem er prófessor í semballeik við Universität der Künste í Berlín. Frá því Andreas Borregaard lauk námi hefur hann verið eftirsóttur einleikari á hljóðfærið, hann hefur ferðast um heiminn og víða komið fram sem einleikari. Auk þess kennir hann við Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn.

Harmóníkan er ekki gamalt hljóðfæri innan klassískrar eða saminnar tónlistar því lengi vel hefur fyrst og fremst verið litið á hana sem hljóðfæri þjóðlagatónlistar og gamallar danstónlistar. Borregaard lítur fyrst og fremst á sig sem alhliða tónlistarmann án þess að þurfi að hnýta við það einhverjum frekari skilgreiningum. Enda er hann mjög fjölhæfur hljóðfæraleikari og hefur á síðustu árum tekist á við mjög fjölbreytt verkefni. Hann frumflytur oft ný verk, sem gjarnan eru samin fyrir hann en hefur einnig sérhæft sig í tónlist frá barokktímanum. Hljóðritun hans á Goldberg­tilbrigðum Bachs, sem var gefin út árið 2017 hefur fengið mjög góða dóma.

Borregaard hefur einnig leikið með hljóðfærahópum eins og Inviolata, MTQ og Stormglas og hann veltir gjarnan fyrir sér tengslum milli flytjenda og áheyrenda og ekki síður tengslum milli ólíkra listgreina. Mörg verkefna hans hafa orðið til úr slíkum vangaveltum.