EN

Andreas Brantelid

Sellóleikari

Andreas Brantelid fæddist í Kaupmannahöfn árið 1987 og er einn eftirsóttasti einleikari Norðurlanda. Hann hóf tónlistarnám hjá föður sínum Ingemar, sem er kunnur sellóleikari og fyrrum nemandi Erlings Blöndal Bengtssonar. Andreas debúteraði sem konsertsólisti 14 ára gamall og lék þá sellókonsert Elgars ásamt Konunglegu dönsku sinfóníuhljómsveitinni. Andreas Brantelid hefur komið fram með mörgum helstu hljómsveitum heims, m.a. öllum helstu hljómsveitum Norðurlanda en einnig t.d. Fílharmóníuhljómsveit Lundúna, Mahler-kammersveitinni og Birmingham-sinfóníuhljómsveitinni. Meðal þeirra stjórnenda sem hann hefur starfað með má nefna Esa-Pekka Salonen, Andris Nelsons, Sakari Oramo og Robin Ticciati. Hann hefur einnig leikið kammertónlist með þekktum tónlistarmönnum á borð við Daniel Barenboim, Joshua Bell, Vadim Repin og Gidon Kremer, og hefur haldið einleikstónleika m.a. í Carnegie Hall, Wigmore Hall, Concertgebouw í Amsterdam og Palau de la Música í Barcelona.

Andreas Brantelid hreppti fyrstu verðlaun í Eurovision-keppni ungra einleikara árið 2006, og hlaut Borletti-Buitoni verðlaunin árið 2008. Hann hlaut Carl Nielsen-verðlaunin í Kaupmannahöfn árið 2015. Hann hefur hljóðritað geisladiska fyrir EMI og BIS, og ný hljóðritun hans af öllum sellóverkum Gabriels Fauré er um það bil að koma á markað. Hann leikur á „Boni-Hegar“ sellóið sem Antonio Stradivari smíðaði árið 1707, og sem hann hefur að láni frá norska safnaranum Christen Sveaas.