EN

Andrew von Oeyen

Píanóleikari

„Ótvíræðir hæfileikar og tækni sem bæði er glæsileg og fyrirhafnarlaus“, sagði gagnrýnandi The Los Angeles Times um leik Andrews von Oeyen, en hann kom fyrst fram með fílharmóníusveit borgarinnar aðeins 16 ára gamall. Hann hefur leikið með hljómsveitum á borð við Sinfóníuhljómsveitirnar í San Francisco, Seattle, Vancouver og Atlanta, og þann 4. júlí 2009 lék hann á tónleikum við þinghús Bandaríkjanna ásamt Þjóðarsinfóníuhljómsveit Bandaríkjanna, í útsendingu sem náði til milljóna víða um heim.

Andrew von Oeyen er af þýsku og hollensku foreldri en er fæddur í Bandaríkjunum. Hann hóf píanónám fimm ára gamall, kom fyrst fram með hljómsveit 10 ára og lærði bæði við Juilliard-listaháskólann og Columbia-háskóla. Hann hefur haldið einleikstónleika m.a. í Wigmore Hall og Barbican Hall í Lundúnum, í Lincoln Center í New York, Symphony Hall í Boston og víða í Japan og Suður-Kóreu. Hann hefur hljóðritað þrjá geisladiska fyrir Warner Classics, og nýverið hefur hann meðal annars komið fram á tónleikum í Buenos Aires, Jerúsalem, Prag og Mílanó.