EN

Anna-Maria Helsing

Hljómsveitarstjóri

Finninn Anna-Maria Helsing hóf feril sinn sem fiðluleikari en lagði síðan stund á hljómsveitarstjórn við Sibeliusarakademíuna í Helsinki undir leiðsögn Leifs Segerstam. Hún hefur stjórnað öllum helstu hljómsveitum í Finnlandi og var aðalhljómsveitarstjóri sinfóníuhljómsveitarinnar í Oulu á árunum 2010–13. Hún kemur reglulega fram með öðrum hljómsveitum á Norðurlöndum, svo sem Konunglegu fílharmóníusveitinni í Stokkhólmi og sinfóníuhljómsveitunum í Gautaborg og Þrándheimi.

Á nýliðnu tónleikaári þreytti hún frumraun sína með Sinfóníuhljómsveitinni í Malmö auk þess að stjórna tveimur af hljómsveitum Breska ríkisútvarpsins (BBC) í fyrsta sinn. Helsing hefur einnig getið sér gott orð fyrir óperuflutning, bæði eldri verka og nýrra. Fyrsta verkefni hennar á því sviði var árið 2008 þegar hún stjórnaði óperunni Adriana Mater eftir Kaiju Saariaho í Finnsku þjóðaróperunni. Hún stýrði frumuppfærslu á óperu Karólínu Eiríksdóttur, Magnus Maria, sem sýnd var víða á Norðurlöndum á árunum 2014–16, meðal annars á Listahátíð í Reykjavík.

Í maí síðastliðnum stjórnaði Helsing frumflutningi dansverksins AIŌN eftir Ernu Ómarsdóttur og Önnu Þorvaldsdóttur á Point-tónlistarhátíðinni í Gautaborg en AIŌN er samstarfsverkefni Íslenska dansflokksins, Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Sinfóníuhljómsveitarinnar í Gautaborg. Anna-Maria Helsing leggur sérstaka rækt við nýrri tónlist og hefur hlotið verðskuldaðar viðurkenningar fyrir það. Árið 1999 vann hún til fyrstu verðlauna í alþjóðlegri keppni 20. aldar tónlistar fyrir unga listamenn í Varsjá og árið 2011 hlaut hún Louis Spohr-verðlaunin í Braunschweig, fyrst hljómsveitarstjóra, en þau eru veitt tónlistarmönnum sem ryðja nýrri tónlist braut og kynna hana ungu fólki.

Anna-Maria Helsing hefur stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands fimm sinnum með frábærum árangri, síðast á tónleikum þar sem ný og nýleg íslensk hljómsveitarverk voru flutt í mars 2019. Þá stjórnaði hún flutningi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Söngsveitarinnar Fílharmóníu og Kammerkórs Norðurlands á Sálumessu Mozarts í apríl 2019.