EN

Anna-Maria Helsing

Hljómsveitarstjóri

Finnski hljómsveitarstjórinn Anna-Maria Helsing er íslenskum tónleikagestum að góðu kunn. Hún stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands í fyrsta sinn vorið 2015 og hefur komið hingað til lands alloft síðan. Hún stjórnaði einnig óperunni Magnus Maria eftir Karólínu Eiríksdóttur víða á Norðurlöndum, meðal annars á Listahátíð í Reykjavík.

Á árunum 2010–2013 var Helsing aðalhljómsveitarstjóri Oulu-sinfóníuhljómsveitarinnar, fyrst kvenna til að vera í forsvari finnskrar sinfóníuhljómsveitar. Helsing hefur stjórnað öllum leiðandi hljómsveitum Finnlands ásamt hljómsveitum í Skandinavíu og Eystrasaltsríkjunum. Meðal þeirra eru Sinfóníuhljómsveit finnska útvarpsins, fílharmóníusveitir Helsinki og Tampere, Konunglega fílharmóníuhljómsveitin í Stokkhólmi og sinfóníuhljómsveitir Gautaborgar, Þrándheims og Eistlands. Helsing hefur einnig látið að sér kveða í óperuheiminum sem hljómsveitarstjóri Finnsku þjóðaróperunnar, óperunnar í Tampere ásamt hljómsveit óperunnar í Malmö og á óperuhátíðinni í Savonlinna.