EN
  • Anne-Sofie-von-Otter5

Anne Sofie von Otter

Einsöngvari

 

Sænska mezzósópransöngkonan Anne Sofie von Otter hefur um árabil talist til fremstu söngvara sinnar kynslóðar á heimsvísu. Hún hefur hljóðritað mikinn fjölda diska fyrir Deutsche Grammophon og hlotið verðlaun á borð við International Record Critics’ Award (listamaður ársins), Grammy-verðlaun (besti flutningur söngvara) og Diapason d’Or-verðlaunin.

Anne Sofie von Otter hlaut heimsfrægð fyrir túlkun sína á hlutverki Oktavians í Rósarriddaranum við Covent Garden, Bæversku þjóðaróperuna, Metropolitan í New York og Staatsoper í Vínarborg. Hún hefur komið fram með öllum helstu hljómsveitarstjórum heims síðustu áratugi, m.a. Carlos Kleiber, John Eliot Gardiner, Bernard Haitink og Giuseppe Sinopoli. Nýverið söng hún á Salzburgar-hátíðinni ásamt Ceciliu Bartoli, söng í Pelléas og Mélisande við Parísaróperuna og söng í Mahagonny eftir Kurt Weill við Covent Garden. Þá hefur hún nýverið sungið með Sinfóníuhljómsveitinni í Boston, Sænsku útvarpshljómsveitinni og hljómsveit Metropolitan-óperunnar í Carnegie Hall. 

Í mars 2019 syngur Anne Sofie von Otter í fyrsta sinn með Sinfóníuhljómsveit Íslands, en hún hélt einsöngstónleika í Háskólabíói á Listahátíð í Reykjavík 2005.