Antonio Méndez
Hljómsveitarstjóri
Spænski hljómsveitarstjórinn Antonio Méndez fæddist árið 1984 í Palma á Mallorca og lagði þar stund á píanó og fiðlunám á unga aldri. Síðar hélt hann til Madridborgar þar sem hann lærði tónsmíðar og hljómsveitarstjórn við Real Conservatorio Superior de Música. Að loknu því námi fluttist Méndez til Þýskalands árið 2007 og lauk prófum í hljómsveitarstjórn frá Listaháskólanum í Berlín og Franz Liszt-tónlistarháskólanum í Weimar. Méndez vann 2. verðlaun í hinni virtu Nikolai Malko-keppni í Kaupmannahöfn árið 2012 og vakti þar með alþjóðlega athygli. Árið eftir komst hann svo í úrslit í hinni virtu hljómsveitarstjórakeppni í Salzburg.
Þrátt fyrir ungan aldur hefur Antonio Méndez stjórnað mörgum nafntoguðum hljómsveitum víða í Evrópu og Bandaríkjunum. Þeirra á meðal eru Tonhalle-hljómsveitin í Zürich, Konzerthaus-hljómsveitin í Berlín, Sinfóníuhljómsveit Vínarborgar, Sinfóníuhljómsveit bæheimska útvarpsins, Fílharmóníusveitin í Rotterdam, Mahler-kammersveitin og Fílharmóníusveitin í Los Angeles. Méndez tók við stöðu aðalstjórnanda Sinfóníuhljómsveitarinnar á Tenerife árið 2018. Hann hefur einnig stjórnað nokkrum óperuuppfærslum, þar á meðal Ariadne af Naxos eftir Richard Strauss á Tónlistarhátíð Kanaríeyja, Madama Butterfly eftir Puccini í Óperunni í Palma á Mallorka og Ástardrykknum eftir Donizetti í Óperuhúsinu á Tenerife.Hljóðritun hans hjá Berlin Classics með Útvarpshljómsveitinni í Stuttgart hlaut Echo Klassikverðlaunin en auk þess hefur hann hljóðritað með Skosku kammersveitinni fyrir Linn-útgáfufyrirtækið.
Antonio Méndez hefur tvisvar sinnum áður stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands. Í fyrra skiptið, sem var í apríl 2016, stjórnaði hann flutningi á flautukonsert Jacques Iber, Rapsodie espagnole eftir Ravel og 8. Sinfóníu Dvořáks, og í seinna skiptið, í febrúar árið 2019 þegar verk eftir Atla Heimi Sveinsson, Sergej Prokofíev og Johannes Brahms voru á efnisskránni.