EN
  • Antonio Mendez

Antonio Méndez

Hljómsveitarstjóri

Spænski hljómsveitarstjórinn Antonio Méndez fæddist árið 1984 í Palma á Mallorca þar sem hann hóf ungur píanó- og fiðlunám. Síðar lærði hann tónsmíðar og hljómsveitarstjórn við Real Conservatorio Superior de Música í Madrid. Méndez fluttist til Þýskalands árið 2007 og lauk prófum í hljómsveitarstjórn frá Listaháskólanum í Berlín og Franz Liszt-tónlistarháskólanum í Weimar. Méndez vakti alþjóðlega athygli þegar hann vann til verðlauna í hinni virtu Nikolai Malko-keppni í Kaupmannahöfn árið 2012. Árið eftir komst hann svo í úrslit í hljómsveitarstjórakeppni í Salzburg.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Antonio Méndez stjórnað mörgum nafntoguðum hljómsveitum í Evrópu og Bandaríkjunum. Þeirra á meðal eru Tonhalle-hljómsveitin í Zürich, Konzerthaus-hljómsveitin í Berlín, Sinfóníuhljómsveit Vínarborgar, Sinfóníuhljómsveit bæverska útvarpsins, Fílharmóníuhljómsveitin í Rotterdam, Mahler-kammersveitin og Fílharmóníusveitin í Los Angeles. Hann tók við stöðu aðalstjórnanda við Sinfóníuhljómsveitina í Tenerife árið 2018. Hljóðritun hans með Útvarpshljómsveitinni í Stuttgart hlaut Echo Klassik-verðlaunin en auk þess hefur hann hljóðritað með Skosku kammersveitinni fyrir Linn-útgáfuforlagið.

Antonio Méndez hefur tvisvar sinnum áður stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands, fyrst árið 2016 og aftur snemma árs 2019 þegar verk eftir Atla Heimi Sveinsson, Sergej Prokofíev og Johannes Brahms voru á efnisskránni.