EN

Arnheiður Eiríksdóttir

Einsöngvari

Mezzósópransöngkonan Arnheiður Eiríksdóttir lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og bakkalárgráðu frá Listaháskólanum í Vínarborg. Þar stundaði hún einnig meistaranám þar til henni bauðst að gerast meðlimur í óperustúdíói Kölnaróperunnar.

Arnheiður hefur verið fastráðin sem einsöngvari við Þjóðaróperuna í Tékklandi síðan í ágúst 2020 og hefur þar meðal annars farið með titilhlutverkið í Rósariddara Richards Strauss (Rosenkavalier), hlutverk tónskáldsins í óperu hans Ariadne auf Naxos, Rosinu í Rakaranum frá Sevilla eftir Rossini, Cherubino í Brúðkaupi Fígarós og Dorabellu í Così fan tutte eftir Mozart, Stephano í Rómeo og Júlíu eftir Gounod, Kuchtík í óperu Dvořáks Rusalka og Varvöru í Kát'a Kabanová eftir Janácek. Fyrir túlkun sína á Rósariddaranum var hún valin söngkona ársins í Tékklandi og tilnefnd til gagnrýnendaverðlaunanna fyrir leik ársins 2022.

Arnheiður þreytti frumraun sína hjá Íslensku óperunni sem Hans í óperunni Hans og Gréta eftir Humperdinck 2018 og vakti þar nýlega athygli fyrir túlkun sína á hlutverk Suzuki í Madama Butterfly eftir Puccini. Sem gestasöngvari hefur hún einnig sungið við Þjóðaróperuna í Bergen í Noregi, Daegu-óperuhúsið í Suður-Kóreu og við Kölnaróperuna.

Í Tékklandi hefur Arnheiður komið fram sem einsöngvari með Suður-bæheimsku fílharmóníunni í Budweis (České Budějovice), Kammerfílharmóníu Pardubice, Fílharmóníu Bohuslav Martinu í Zlín en einnig Gürzenich hljómsveitinni í Köln og EinKlang-fílharmóníunni í Münster. Þá hefur hún sungið Les nuits d'été eftir Berlioz með Silesísku fílharmóníunni í Katovice. Á þessu starfsári bíða hennar tónleikar með Tékknesku fílharmóníunni og Fílharmóníuhljómsveitinni í Prag.