Arvo Pärt
Tónskáld
Arvo Pärt fæddist þann 11. september 1935 í eistneska bænum Paide sem liggur skammt suðaustur af höfuðborginni Tallinn. Sjö ára gamall hóf hann tónlistarnám og byrjaði á táningsaldri að glíma við tónsmíðar. Hann stundaði nám við Konservatóríið í höfuðborginni Tallinn þar sem Veljo Tomis og Heino Eller voru lærifeður hans og stafaði meðfram náminu sem tónmeistari hjá eistneska ríkisútvarpinu frá 1958–1967. Föðurland hans var á þessum árum hluti af Sovétríkjunum og lauk hann prófi árið 1963 eftir að hafa komist í gegnum nálarauga hins alsovéska afrekaeftirlits fyrir ungtónskáld. Verk hans vöktu fljótt athygli í hinum vestræna heimi vegna þess að þau endurspegluðu þjóðlega tónlist heimalands hans á auðskiljanlegan en um leið nýstárlegan hátt. Sovéskir menningarfrömuðir voru aftur á móti ekki hrifnir vegna hins móderníska tónmáls hans. Arvo Pärt starfaði sem tónskáld í Tallinn frá 1967 til 1980, þegar hann „vegna þrýstings frá sovéskum yfirvöldum“ flúði til Vesturlanda og var Vínarborg þar hans fyrsta hæli. Ári síðar flutti hann sem styrkþegi til Berlínar og bjó þar til ársins 2008 þegar hann flutti aftur til heimalandsins, hins frjálsa Eistlands.
Í upphafi tónskáldaferils síns samdi Arvo Pärt í frjálsum nýklassískum stíl en tileinkaði sér fljótlega nýjungar úr alþjóðlegri framúrstefnu samtímans. Samdi hann árið 1960 fyrsta eistneska tólftónaverkið og reyndi fyrir sér í hinum ýmsu stílbrigðum, meðal annars klippitónlist sem snýst um að taka búta úr verkum eldri meistara og setja í nýtt samhengi. Síðasta verk Pärts í þessum stíl er Credo frá árinu 1968.