EN

Áskell Másson

Áskell Másson (f. 1953) er á meðal fremstu og afkastamestu tónskálda þjóðarinnar. Eftir hann liggja hátt í þrjúhundruð tónverk, þar af fjórar sinfóníur, nítján einleikskonsertar, verk fyrir fjölbreytilega kammerhópa og einleikshljóðfæri, leikhústónlist, sönglög, óratoría og ein ópera. Verk hans hafa hljómað í virtustu tónleikasölum heims í flutningi framúrskarandi flytjenda og sinfóníuhljómsveitir um heim allan hafa flutt verk hans. Slagverkstónlist hans hefur vakið alþjóðlega athygli, er kennd í tónlistarháskólum víða um heim og hljómar gjarnan í alþjóðlegum tónlistarkeppnum en hann hefur verið nefndur brautryðjandi á sviði slagverkstónlistar og verið heiðraður sem slíkur.

Á táningsárum kviknaði áhugi Áskels á tónlist fjarlægra menningarheima. Fjölbreytilegur hljóðheimur slagverksins heillaði hann sérstaklega og upp úr því varð ekki aftur snúið. Hann er að mestu sjálfmenntaður slagverksleikari, stundaði þó um skeið nám við Tónlistarskólann í Reykjavík en hefur mótað sinn eigin stíl og aðferðir líkt og við fáum að njóta hér í kvöld. Áskell hefur komið fram í alls kyns samhengi sem slagverksleikari, flutt eigin verk og í samstarfi við aðra víða um heim, en þetta er í fyrsta sinn sem hann stígur á svið sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands.