Augustin Hadelich
Fiðluleikari
Grammy-verðlaunahafinn Augustin Hadelich hefur skotist upp á stjörnuhimin klassískrar tónlistar með undraverðum hraða síðustu ár. Hann var valinn hljóðfæraleikari ársins 2018 af tímaritinu Musical America og þykir ná að sameina í leik sínum yfirburða tækni og djúpa túlkun á hátt sem fáum er gefinn.
Hadelich hefur komið fram með mörgum helstu hljómsveitum heims og starfar reglulega með hljómsveitarstjórum í fremstu röð. Á nýliðnu tónleikaári lék Hadelich meðal annars með Bæversku útvarpshljómsveitinni, Dönsku þjóðarhljómsveitinni, Finnsku útvarpshljómsveitinni og Sinfóníuhljómsveitinni í Birmingham, auk þess sem hann kom í fyrsta sinn fram á tónlistarhátíðinni í Salzburg. Í Bandaríkjunum kom hann meðal annars fram með Fílharmóníusveitinni í Los Angeles í Hollywood Bowl, en einnig í Cincinnati og Minnesota, svo fátt eitt sé nefnt.
Hadelich hefur yndi af því að leika kammertónlist og hefur meðal annars komið fram á kammertónleikum í Carnegie Hall, Concertgebouw í Amsterdam, Kennedy Center í Washington D.C., Wigmore Hall í Lundúnum og Louvre-safninu í París. Hann hlaut Grammy-verðlaun árið 2016 fyrir hljóðritun sína á fiðlukonsert Henri Dutilleux með Sinfóníuhljómsveit Seattle undir stjórn Ludovic Morlot. Fyrir aðra diska sína hefur hann meðal annars verið tilnefndur til Gramophone-verðlauna.
Hadelich er fæddur á Ítalíu af þýsku foreldri, en er nú bandarískur ríkisborgari. Hann lærði við Juilliard-skólann í New York, en ferill hans fór á flug þegar hann hreppti gullverðlaun í alþjóðlegu fiðlukeppninni í Indianapolis árið 2006. Síðan hefur hann meðal annars hlotið Avery Fisher-verðlaunin og Martin E. Segal-verðlaunin sem Lincoln Center veitir ár hvert. Augustin Hadelich leikur á fiðlu sem Giuseppe Guarneri del Gesù smíðaði árið 1744 („Leduc, ex Szeryng“), sem ónefndur velgjörðarmaður hefur falið honum til yfirráða gegnum Tarisio-stofnunina.