EN

Baldvin Oddsson

Trompetleikari

Baldvin Oddsson hóf trompetnám í Tónskóla Sigursveins fimm ára gamall og lauk þaðan framhalds- og burtfararprófi með tónleikum í Seltjarnarneskirkju 10 árum síðar. Baldvin hefur síðan verið við tónlistarnám í Bandaríkjunum, fyrst við Interlochen Arts Academy í Michigan þar sem hann bar sigur úr býtum í einleikarakeppni skólans og lék í kjölfarið einleik með skólahljómsveitinni. Þá nam hann við San Francisco Conservatory of Music og veturlangt hjá trompeteinleikaranum Stephen Burns í Chicago. Baldvin lauk síðan B.A. gráðu sinni við Manhattan School of Music í New York árið 2016.

Baldvin hefur þrívegis áður leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, fyrst árið 2008, síðan í janúar síðastliðnum sem einn sigurvegara í einleikarakeppni hljómsveitarinnar Ungir einleikarar og sem einleikari á Aðventutónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 2015. Þá hefur hann einnig tvisvar sinnum komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, fyrst árið 2007 og síðan árið 2009 þegar hann frumflutti trompetkonsert eftir Oliver Kentish sem tónskáldið tileinkaði honum. Árið 2010 lék síðan hann einleik með Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna. Síðla árs 2010 var Baldvini boðið að koma fram í útvarpsþættinum From the Top á vegum National Public Radio í Bandaríkjunum, en þátturinn er sendur út á um 250 útvarpsstöðum víðsvegar um landið. Við sama tækifæri hlaut Baldvin hin eftirsóttu Jack Kent Cooke Young Artist verðlaun. Þar að auki hefur Baldvin víða komið fram á tónlistarviðburðum í Evrópu og Norður Ameríku og hlotið fjölda viðurkenninga. Hann var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2013 sem Bjartasta vonin.