EN

Behzod Abduraimov

Píanóleikari

 

Behzod Abduraimov er meðal fremstu píanista heims um þessar mundir og hefur hlotið mikið lof fyrir túlkun sína. Hann er fæddur árið 1990 í Tashkent, höfuðborg Úsbekistans, og hóf píanónám fimm ára gamall. Hann fluttist til Bandaríkjanna til frekara náms árið 2007 og hlaut fyrstu verðlaun í Alþjóðlegu píanókeppninni í Lundúnum 2009, aðeins 18 ára gamall. Fyrsti geisladiskur hans, hljóðritun fyrir Decca-forlagið á verkum eftir Prokofíev, Liszt og Saint-Saëns, kom út árið 2012 og hlaut afar lofsamlega dóma.

Undanfarin ár hefur Abduraimov komið fram með leiðandi hljómsveitum heims, til dæmis Fílharmóníuhljómsveitinni í Los Angeles, Sinfóníuhljómsveitinni í Boston og Gewandhaus-hljómsveitinni í Leipzig. Meðal þeirra stjórnenda sem hann hefur starfað með má nefna Valerí Gergíev, Vladimir Ashkenazy, Vladimir Jurowski og James Gaffigan. Hann kom fram á BBC Proms-hátíðinni ásamt Gergíev og Fílharmóníuhljómsveitinni í München sumarið 2016 og var honum umsvifalaust boðið aftur sumarið 2017, þar sem hann lék einmitt píanókonsert nr. 2 eftir Rakhmanínov. Í fyrra lék Abduraimov í fyrsta sinn í stóra sal Carnegie Hall og kom einnig fram með Fílharmóníuhljómsveit Los Angeles í Hollywood Bowl. Framundan eru m.a. tónleikar með Concertgebouw-hljómsveitinni í Amsterdam, tónleikar í Barbican-listamiðstöðinni í Lundúnum og tónleikaferð með norska sellóleikaranum Truls Mørk.

Abduraimov kemur nú til Íslands í annað sinn, en hann lék píanókonsert nr. 3 eftir Prokofíev með Osmo Vänskä í Hörpu haustið 2015 við mikinn fögnuð áheyrenda.