EN

Benedikt Kristjánsson

Einsöngvari

Benedikt Kristjánsson er fæddur árið 1987 á Húsavík. Hann hóf söngnám 16 ára gamall við Söngskólann í Reykjavík hjá Sibylle Köll og síðan Margréti Bóasdóttur. Samhliða námi söng hann í Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og Hamrahlíðakórnum undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Benedikt lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 2007 þar sem Margrét Bóasdóttir var kennari hans. Því næst stundaði hann nám við Hanns Eisler-tónlistarháskólann í Berlín, þar sem aðalkennari hans var Scot Weir. Hann útskrifaðist þaðan árið 2015. Hann hefur sótt meistaranámskeið hjá Peter Schreier, Christu Ludwig, Elly Ameling, Robert Holl, Andreas Schmidt, Thomas Quasthoff og Helmut Deutsch.

Benedikt hlaut fyrstu verðlaun í alþjóðlegri Bach-söngkeppni í Greifswald í júní 2011 og einnig verðlaun áheyrenda. Hann hlaut verðlaun áheyrenda í alþjóðlegu Bach-keppninni í Leipzig sumarið 2012, fékk styrk úr Jean-Pierre Jaquillat sjóðnum, og var valinn Bjartasta vonin í sígildri og samtímatónlist á Íslensku tónlistarverðlaununum. Árið 2016 var hann valinn söngvari ársins í sígildri og samtímatónlist á Íslensku tónlistarverðlaununum, og aftur 2020. Benedikt hlaut OPUS Klassik verðlaunin fyrir nýstárlegustu tónleika ársíns 2019. Þar flutti hann Jóhannesarpassíu Bachs í óvenjulegri uppfærslu, ásamt sembal og orgelleikara, og slagverksleikara. Það sama ár kom út fyrsta sólóplata hans, ,,Drang in die Ferne“, en á henni eru tvinnuð saman sönglög eftir Schubert og íslensk þjóðlög sungin án undirleiks. Platan fékk mikið lof gagnrýnenda og var tilnefnd sem plata ársins á ICMA, OPUS Klassik og á Íslensku tónlistarverðlaununum 2020. Sama ár flutti hann einnig ,,óvenjulegu“ Jóhannesarpassíuna í tómri Tómasarkirkju í Leipzig við gröf Bachs á föstudaginn langa. Viðburðurinn var gríðarlega vinsæll og hundruð þúsunda fylgdust rafrænt með um heim allan. 

Benedikt hefur komið fram sem einsöngvari í mörgum af stærstu tónleikahúsum heims, eins og Fílharmoníunni í Berlín, Concertgebouw í Amsterdam, Chapelle royale í Versölum og í Walt Disney Hall í Los Angeles. Einnig hefur hann sungið í óperuhúsunum Staatsoper Berlin, Theater Kiel og Staatstheater Braunschweig, þar sem hann hefur flutt bæði barokkóperur og ný verk. Hann er tíður gestur á virtum tónlistarhátíðum, eins og Bachfest Leipzig, Musikfest Stuttgart, Händelfestspiele Halle og Oude Muziek Festival Utrecht. Hann hefur unnið með mörgum virtum stjórnendum, þar má nefna Reinhard Goebel, Reinbert de Leeuw, Peter Dijkstra, Vaclav Luks, Hans-Christoph Rademann, Vladimir Jurowski og Philippe Herreweghe.