EN

Bertrand de Billy

Hljómsveitarstjóri

Franski hljómsveitarstjórinn Bertrand de Billy gegnir stöðu aðalgestastjórnanda á árunum 2021–2023. Hann hefur getið sér einstaklega gott orð bæði sem óperustjórnandi og stjórnandi sinfónískrar tónlistar. Hann var um skeið tónlistarstjóri við Liceu-óperuhúsið í Barcelona, aðalstjórnandi Útvarpshljómsveitarinnar í Vínarborg á árunum 2002–2010, og er nú aðalgestastjórnandi við Fílharmóníusveitina í Dresden.

Bertrand de Billy kom fyrst til Íslands í febrúar 2011 og stjórnaði meðal annars fjórðu sinfóníu Antons Bruckner. Hann stjórnaði hljómsveitinni aftur í Hörpu árið 2018 og vakti feykilega hrifningu bæði hljómsveitar og áheyrenda. Á starfstíma de Billys með hljómsveitinni mun hann stjórna öllum sinfóníum Johannesar Brahms auk þess sem hann stjórnar Þýskri sálumessu eftir Brahms í mars 2022.