EN

Bylgja Dís Gunnarsdóttir

Einsöngvari

Bylgja Dís Gunnarsdóttir sópransöngkona lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík. Hún stundaði framhaldsnám við Royal Scottish Academy of Music and Drama og útskrifaðist þaðan með Master of Music og Master of Opera-gráður. Bylgja hefur tvívegis komið fram með Konunglegu skosku þjóðarhljómsveitinni, einnig í Skosku óperunni/RSAMD í hlutverki Laurettu (Gianni Schicchi) og Clonter Opera Theatre (Donna Anna í Don Giovanni). Bylgja var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2017 sem söngkona ársins fyrir flutning sinn á lögum eftir John Corigliano við texta Bob Dylan. Hún söng með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna við frumflutning á Lútherskantötu eftir Eirík Árna Sigtryggsson og söng einnig með Ungfóníu í Carmina Burana eftir Carl Orff. 

Með Norðurópi hefur hún sungið hlutverk Tatjönu í Evgéní Ónégin, Toscu í samnefndri óperu, Sentu í Hollendingnum fljúgandi og Musettu í La bohème. Hjá Íslensku óperunni hefur hún sungið hlutverkin Flora (La Traviata) og Giovanna (Rigoletto). Einnig hefur hún verið varasöngvari hjá Íslensku óperunni fyrir hlutverk Elisabettu (Don Carlo) og Brünnhilde (Die Walküre) hjá LidalNorth/Norsku óperunni. Bylgja söng með Óp-hópnum frá stofnun hans á mánaðarlegum tónleikum hjá Óperu Íslands og söng í fjölda uppsetninga sem hópurinn kom að, til dæmis aðalhlutverkið í Suor Angelica eftir Puccini og óperusenum þar sem hún söng meðal annars Salome úr samnefndri óperu eftir Richard Strauss.