EN

Charlotte Hellekant

Einsöngvari

Sænska mezzósópransöngkonan Charlotte Hellekant er meðal fremstu söngkvenna Norðurlanda og hefur um áratuga skeið komið fram víða um heim. Hún hefur meðal annars sungið við Metropolitan-óperuna í New York, Parísaróperuna og komið fram á Glyndbourne-óperuhátíðinni í Englandi. Meðal helstu hlutverka hennar eru Charlotte í Werther, sem hún hefur sungið m.a. við Deutsche Oper í Berlín, og Carmen sem hún hefur sungið við Konunglegu óperuna í Stokkhólmi. Hún hefur sungið í óperum Händels undir stjórn Marks Minkowski við Théâtre des Champs Elysées og óperuna í Zürich, auk þess sem hún syngur á hljóðritun hans á Giulio Cesare á Deutsche Grammophon ásamt Magdalenu Kozená og Anne Sofie von Otter. Hún hefur sungið hlutverk Júditar í Kastala Bláskeggs eftir Bartók á Listahátíðinni í Bergen og kom fram í Fordæmingu Fásts eftir Berlioz á Salzburgarhátíðinni við frábærar undirtektir.

Charlotte Hellekant er einnig ötull flytjandi samtímatónlistar og fjöldi tónskálda hefur samið verk sérstaklega fyrir hana. Má þar nefna Toshio Hosokawa, sem samdi fyrir hana einþáttunginn The Raven, sem hún hefur flutt m.a. í Brussel, Amsterdam og í Japan.

Hellekant hefur komið fram með fjölmörgum heimskunnum hljómsveitum og stjórnendum. Má þar nefna tónleika með Christoph von Dohnányi á Proms-tónlistarhátíðinni í Royal Albert Hall, með Esa-Pekka Salonen og hljómsveitinni Fílharmóníu, og Gustavo Dudamel og Fílharmóníusveit Los Angeles. Á þessu starfsári syngur hún meðal annars við Staatsoper í Berlín og kemur fram á tónleikum með Þjóðarhljómsveit Frakklands þar sem hún syngur Sieben frühe Lieder eftir Alban Berg.

Hellekant hefur einu sinni áður sungið á tónleikum á Íslandi, þegar hún kom fram í óratoríunni Draumur Gerontiusar eftir Elgar með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói árið 2002, undir stjórn Vladimirs Ashkenazy.