Christian Øland
Hljómsveitarstjóri
Hljómsveitarstjórinn Christian Øland (1994) er rétt þrítugur og upprennandi stjarna innan stéttarinnar á Norðurlöndum. Hann fæddist í Danmörku, hóf nám í hljómsveitarstjórn við Síbelíusarakademíuna í Helsinki átján ára að aldri og aðeins ári síðar var hann orðinn aðstoðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar finnska útvarpsins í Helsinki undir handleiðslu Hannu Lintu, aðalhljómsveitarstjóra hennar. Hann hefur einnig unnið með ýmsum þekktum gestastjórnendum hljómsveitarinnar, þar á meðal ekki minni mönnum en Esa-Pekka Salonen, Herbert Blomstedt og Olliver Knussen. Kennarar hans við akademíuna voru ekki af verri endanum því þar má nefna Atso Almila, Hannu Lintu, Leif Segerstam, Jorma Panula, Herbert Blomstedt og Esa-Pekka Salonen. Áður en Christian Øland tók upp tónsprotann lærði hann á fagott og píanó í Danmörku og spilaði á fagottið í Finnsku útvarpshljómsveitinni samhliða hljómsveitarstjóranáminu við Síbelíusarakademíuna.
Á þessu starfsári stjórnar Øland mörgum af helstu hljómsveitum Norðurlanda, þar á meðal Sinfóníuhljómsveitum Gautaborgar og Helsingjaborgar í Svíþjóð, Fílharmóníuhljómsveit Kaupmannahafnar og Sinfóníuhljómsveitum jósku borganna Álaborgar og Árósa, einnig Suðurjósku Fílharmóníusveitinni í Sønderborg og Fílharmóníusveitinni í Magdeburg í Þýskalandi. Í október á síðasta ári stjórnaði hann frumflutningi á dansverkinu Leaning Tree eftir danska tónskáldið Signe Lykke þar sem Fílharmóníuhljómsveit Kaupmannahafnar lék. Hann hefur stjórnað fleiri ballettverkum og óperuuppfærslum. Má þar nefna óperuna Fête Galante eftir annað danskt tónskáld, Poul Schierbeck, við Dönsku þjóðaróperuna og Hnotubrjótinn eftir Pjotr Tsjajkovskíj hjá Konunglega danska ballettinum. Hann stjórnaði einnig frægri uppfærslu Mats Ek á Rómeó og Júlíu, einnig eftir Tsjajkovskíj, hjá Konunglega sænska ballettinum og uppfærslu Helsinki Sinfoníetta á Jónsmessunæturdraumi eftir Benjamin Britten.
Það er gleðiefni að fá hann nú á svið með tónsprotann fyrir framan Sinfóníuhljómsveit Íslands.