EN

Claire Huangci

Píanóleikari

Bandaríski píanóleikarinn Claire Huangci vakti athygli á ungum aldri þegar hún bar sigur úr býtum í alþjóðlegum Chopin-keppnum bæði austan hafs og vestan. Túlkun hennar á verkum pólska píanósnillingsins þótti framúrskarandi en hún hefur ekki síðri tök á tónlist frá öðrum tímabilum og leikur jöfnum höndum verk eftir Bach, rússnesku meistarana og Leonard Bernstein. Hún sigraði í Géza Anda-píanókeppninni í Sviss árið 2018 og hlaut þá jafnframt sérstök verðlaun fyrir Mozarttúlkun sína sem og áheyrendaverðlaun.

Huangci stundaði nám við Curtis-tónlistarskólann í Fíladelfíu í Bandaríkjunum en fluttist síðan til Þýskalands og hélt áfram námi við tónlistarháskólann í Hannover þaðan sem hún útskrifaðist með láði árið 2016. Hún hefur leikið einleik með ýmsum hljómsveitum, ekki síst á þýska málsvæðinu, svo sem Útvarpshljómsveitinni í Vínarborg, Mozarteum-hljómsveitinni í Salzburg, Tonhalle-Orchester Zürich og útvarpshljómsveitunum í Stuttgart og Saarbrücken. Á þessu starfsári hefur hún meðal annars komið fram í Frankfurt, Wiesbaden, Stuttgart og í Kaliforníu þar sem hún lék einleik með Pacific Symphony Orchestra undir stjórn Carls St. Clair. Meðal annarra hljómsveitarstjóra sem hún hefur unnið með má nefna Elim Chan, Howard Griffiths, Pietari Inkinen, Cornelius Meister, Roger Norrington og Evu Ollikainen.

Claire Huangci hefur gefið út allmargar plötur, meðal annars tvöfalda hljómplötu með sónötum eftir Domenico Scarlatti sem hlaut viðurkenningu tímaritsins Gramophone. Síðar á þessu ári kemur út á vegum Alpha Classics hljóðritun hennar á píanókonsertum eftir Mozart með Mozarteum-hljómsveitinni í Salzburg undir stjórn Howards Griffiths.