Claire Huangci
Píanóleikari
Bandaríski píanóleikarinn Claire Huangci vakti athygli á unga aldri þegar hún bar sigur úr býtum í alþjóðlegum Chopin-keppnum bæði austan hafs og vestan. Túlkun hennar á verkum pólska píanósnillingsins þótti framúrskarandi en hún hefur ekki síðri tök á tónlist frá öðrum tímabilum og leikur jöfnum höndum verk eftir Bach, rússnesku meistarana og Leonard Bernstein. Hún sigraði í Géza Anda-píanókeppninni í Sviss árið 2018 og hlaut þá jafnframt sérstök verðlaun fyrir Mozarttúlkun sína sem og áheyrendaverðlaun.
Huangci stundaði nám við Curtis-tónlistarskólann í Fíladelfíu í Bandaríkjunum en fluttist síðan til Þýskalands og hélt áfram námi við tónlistarháskólann í Hannover þaðan sem hún útskrifaðist með láði árið 2016. Hún hefur leikið einleik með ýmsum hljómsveitum, ekki síst á þýska málsvæðinu, svo sem Mozarteum-hljómsveitinni í Salzburg, Tonhalle-Orchester Zürich, kammersveitinni í Basel og útvarpshljómsveitunum í Stuttgart, Saarbrücken og Vínarborg. Huangci kom í fyrsta sinn fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrir tveimur árum þegar hún stökk inn í forföllum annars píanista og lék G-dúr píanókonsert Ravels með glæsibrag.
Claire Huangci hefur gefið út allmargar plötur, meðal annars tvöfalda hljómplötu með sónötum eftir Domenico Scarlatti sem hlaut viðurkenningu tímaritsins Gramophone. Árið 2023 kom út á vegum Alpha Classics hljóðritun hennar á píanókonsertum eftir Mozart með Mozarteum-hljómsveitinni í Salzburg undir stjórn Howards Griffiths, og þeirri plötu fylgdi hún eftir með sólóplötu þar sem hún leikur verk eftir bandarísku tónskáldin Gershwin, Beach og Barber.