EN

Dimitri Þór Ashkenazy

Klarínettuleikari

„Ég hef sjaldan heyrt eins vel spilað á klarínettu,“ sagði gagnrýnandi Morgunblaðins um tónleika Dimitris Ashkenazy á Íslandi fyrir rúmum áratug. Nú snýr hann aftur til Íslands og leikur sjaldheyrðan konsert eftir franska tónskáldið Jean Françaix, sem kunnur er fyrir leikandi létta og skemmtilega tónlist.

Dimitri Ashkenazy fæddist árið 1969 í New York en ólst upp á Íslandi ásamt foreldrum sínum, Þórunni Jóhannsdóttur og Vladimir Ashkenazy. Hann hóf píanónám sex ára gamall en skipti síðar yfir á klarínett og lærði við Tónlistarháskólann í Luzern. Hann hefur komið víða fram bæði sem einleikari og í kammertónlist, m.a. með Konunglegu fílharmóníunni í Lundúnum, Þýsku útvarpshljómsveitinni í Berlín og Sinfóníuhljómsveitinni í Sidney.

Dimitri Þór hefur einnig leikið kammertónlist m.a. með Kodály-, Endellion-, Heath- og Brodsky-kvartettunum og einnig með söngkonunum Barböru Bonney og Editu Gruberovu, píanóleikurunum Cristinu Ortiz, Mariu João Pires, og vitaskuld föður sínum, Vladimir Ashkenazy, og bróður sínum, Vovka. Hann hefur hljóðritað fjölda geisladiska, meðal annars fyrir paladino, Orlando, Pan Classics, Decca og Ondine), og hefur haldið meistaranámskeið m.a. í Ástralíu, á Spáni, í Nýja Sjálandi, á Íslandi og í Bandaríkjunum.