EN

Dísella Lárusdóttir

Einsöngvari

Dísella Lárusdóttir þreytti frumraun sína á sviði í Evrópu í vor þegar hún fór með hlutverk Lulu í samnefndri óperu eftir Alban Berg í óperunni í Róm á Ítalíu. Dísella kom fyrst fram hjá Metropolitan-óperunni í New York í mars 2013 þar sem hún söng hlutverk Garsendu í Francesca da Rimini eftir Riccardo Zandonai. Síðan þá hefur hún fengið að spreyta sig í fimm öðrum óperuuppfærslum á þessu merka sviði; sem Woglinde í óperum Richards Wagner, Das Rheingold og Götterdämmerung, þjónn í Die Frau ohne Schatten eftir Richard Strauss, fyrsti skógarálfur í Rusalka eftir Antonín Dvorák, Lísa í La sonnambula eftir Vincenzo Bellini, Barena í Jenufa eftir Leoš Janáček, og Papagena í Töfraflautunni eftir Mozart. Haustið 2015 tók hún þátt í uppfærslu hússins á Lulu, þar sem hún var staðgengill fyrir titilhlutverkið. Þess má geta að Francesca da Rimini og Rusalka voru sýndar í beinni útsendingu um allan heim í svokallaðri HD Live sýningu. 

Vorið 2013 kom Dísella fram sem einsöngvari í Vesperae solennes de confessore eftir Mozart í Carnegie Hall og sumarið 2014 söng hún Stabat mater eftir Giovanni Battista Pergolesi í Disney Hall í Los Angeles. Þá kom hún fram á tónlistarhátíðum í Madison, Wisconsin, og í Breckenridge, Colorado. Dísella mun stíga aftur á svið Metropolitan-óperunnar í janúar í hlutverki Gianettu í Ástardrykknum eftir Donizetti og einnig fer hún með hlutverk blómastúlku í óperunni Parsifaleftir Wagner.