EN

Dmitry Shishkin

Píanóleikari

Rússneski píanóleikarinn Dmitry Shishkin er á hraðri leið upp á stjörnuhimin píanóheimsins, en hann hefur komið fram með helstu hljómsveitum í Evrópu og í Asíu auk þess að halda einleikstónleika í helstu tónleikahúsum heims. Shishkin hefur sent frá sér þrjár hljóðritanir á verkum ólíkra tónskálda á borð við Medtner, Wagner, Elgar og Chopin en breska tónlistartímaritið Gramophone hefur lýst leik Shishkins sem bæði skýrum og hugmyndaríkum auk þess sem hinn heimsþekkti píanóleikari, Evgeny Kissin, hefur meðal annars hælt honum sérstaklega fyrir „náttúrulega tónlistarlega fágun og listfengi“.

Dmitry Shishkin er búsettur í Sviss en hann fæddist í Chelyabinsk í suðurhluta Rússlands árið 1992 og hóf snemma að nema píanóleik hjá móður sinni, Írinu. Tveggja ára gamall var hann farinn að geta leikið smærri verk, hann hélt sína fyrstu tónleika þriggja ára og sex ára gamall lék hann í fyrsta skipti með hljómsveit. Hann innritaðist í Pjotr Tsjajkovskíj-tónlistarskólann í heimaborg sinni fjögurra ára gamall og fimm ára í Gnessin-ríkisháskólann í Moskvu. Frá 2010 nam hann hjá Eliso Virsaladze við Tónlistarháskóla Moskvuborgar.

Shishkin hefur unnið til margra verðlauna á sviði tónlistar, þar á meðal önnur verðlaun í Tsjajkovskíj-keppninni árið 2019 en ári áður fór hann með sigur af hólmi í alþjóðlegu tónlistarkeppninni í Genf.