EN

Dúó Harpverk

Katie Buckley og Frank Aarnink

Dúó Harpverk var stofnað af Katie Buckley hörpuleikara og Frank Aarnink slagverksleikara árið 2007. Markmið dúósins er að panta og flytja tónlist fyrir hörpu og slagverkshljóðfæri. Hefur Harpverk frá upphafi pantað á annað hundrað verk hjá íslenskum sem og erlendum tónskáldum víðsvegar að úr heiminum með áherslu á yngri tónskáld. Verkalistann prýða þó einnig verk þekktra og reyndra tónskálda. 

Harpverk hefur komið fram á fjölmörgum tónlistarhátíðum innanlands og utan. Má þar nefna Listahátíð í Reykjavík, Tectonics-tónlistarhátíðina, Myrka Músíkdaga, Iceland Airwaves-hátíðina, Kirkjulistahátíð, Danish OpenDays festival, Icelandic Music Days í Amsterdam og Summartónar Festival í Færeyjum. Harpverk lék einnig á Nordic Cool-tónlistarhátíðinni í Kennedy Center árið 2013. 

Katie Buckley og Frank Aarnink hafa bæði starfað um árabil í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Frank er ættaður frá hollensku borginni Hengelo sem liggur 130 km. austur af Amsterdam. Hann stundaði nám við Konservatóríið í Amsterdam og lék sem aukamaður með helstu hljómsveitum Hollands áður en hann gekk til liðs við Sinfóníuna árið 2001. Katie hóf störf hjá Sinfóníuhljómsveitinni árið 2005. Hún er ættuð frá bandarísku borginni Atlanta í Georgíu. Katie er með bakkalár- og mastersgráðu í tónlist og lauk einleikaraprófi frá Eastman-tónlistarskólanum í Rochester, New York.