Einar Dagur Jónsson
Einsöngvari
Einar Dagur Jónsson tenór er fæddur í Reykjavík árið 1996. Hann hóf söngnám árið 2013 í Söngskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Egils Árna Pálssonar, Antoniu Hervesi og Jóhanns Kristjánssonar. Síðar stundaði Einar nám við tónlistarskólann Institut für Musiktheater í Karlsruhe þar sem Stephan Kohlenberg var hans aðalkennari og árið 2022 hóf hann nám við tónlistarskólann í Leipzig hjá Roland Schubert.
Á Íslandi hefur Einar komið fram sem einsöngvari á fjölmörgum tónleikum, þar á meðal með Kór Langholtskirkju undir stjórn Jóns Stefánssonar, í uppfærslu Óperukórs Reykjavíkur á La Traviata og með Sinfóníuhljómsveit Íslands á opnunartónleikum hljómsveitarinnar árið 2015 undir stjórn Ricos Saccani. Á erlendri grundu hefur Einar sungið víða og við ýmis tækifæri. Má þar nefna einsöng við tónlistarhátíðir á borð við Volksfestspiele Ötigheim á stæsta útisviði Þýskalands, Schlossfestpiele Ettlingen og Sommerfestspiele Weikersheim. Á óperunasviðinu hefur Einar sungið allt frá söngleikjum til Wagnerópera í þekktum óperuhúsum og með hljómsveitum meginlandsins. Þar á meðal má nefna óperuhúsin í Leipzig, Karlsruhe (Das badische Staatstheater) óperuna í Chemnitz og Die Musikalische Komödie í Leipzig og hljómsveitir á borð við Die Badische Staatskapelle í Karlsruhe, Robert-Schumann Fílharmóníuna í Chemnitz. Þá söng Einar nýlega á óperuballi með hinni margrómuðu Gewandhaus-hljómsveit í Leipzig og með Saxnesku blásarafílharmóníunni þar í borg.
Frá og með þessu leikári er Einar fastráðinn við Óperuna í Leipzig, þar sem hann mun koma fram í 11 mismunandi hlutverkum, þar á meðal sem Froh í Rínargullinu eftir Wagner, Pluto í Orfeus í undirheimunum eftir Offenbach, Nornin í Hans og Grétu eftir Humperdinck , á óperettutónleikum í leikhúsinu Die Musikalische Komödie í Leipzig og í óperunni Lady Macbeth eftir Shostakovitsj í beinu streymi Arte á Shostakovitsj hátíðinni með Gewandhaus-hljómsveitinni í Leipzig undir stjórn Andris Nelsons.