EN

Eivind Aadland

Hljómsveitarstjóri

Eivind Aadland er einn af virtustu hljómsveitarstjórum Noregs. Hann var aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Þrándheims á árunum 2004 til 2010. Aadland hefur stjórnað öllum helstu sinfóníuhljómsveitum Norðurlanda og kemur reglulega fram sem gestastjórnandi með fílharmóníuhljómsveitunum í Bergen og Ósló, sinfóníuhljómsveitum Stafangurs og Gautaborgar og Sænsku kammersveitinni.

Utan Norðurlandanna hefur Aadland unnið mikið með sinfóníuhljómsveitum í Ástralíu, Austurlöndum fjær, Belgíu, Hollandi, Finnlandi, Skotlandi og Þýskalandi. Hann hefur einnig fengist við óperustjórn og hlutu Töfraflautan, Brúðkaup Fígarós, Don Giovanni og Leðurblakan afbragðs viðtökur er hann stýrði uppfærslum verkanna við Norsku óperuna.

Eivind Aadland hóf feril sinn sem fiðluleikari og lærði hjá hinum heimsþekkta fiðluleikara Yehudi Menuhin. Léku þeir saman á tónleikum, m.a. í París og London. Síðar gegndi Aadland um árabil stöðu konsertmeistara Fílharmóníu­hljómsveitarinnar í Bergen en ákvað að venda kvæði sínu í kross og hóf nám í hljómsveitarstjórn hjá Jorma Panula við Sibeliusarakademíuna í Helsinki.

Aadland myndar sterk tengsl við hljóðfæraleikarana sem hann vinnur með enda hefur hann verið tíður gestur Sinfóníuhljómsveitar Íslands allt frá fyrstu heimsókninni fyrir tíu árum. Þá bar samstarf hans við Ungsveit hljómsveitarinnar glæsilegan árangur í flutningi á 10. sinfóníu Shostakovitsj í Eldborg haustið 2015 og 5. sinfóníu Tsjajkovskíj ári síðar.

Aadland hefur hljóðritað sem hljómsveitarstjóri og sem fiðlu­leikari fyrir Hyperion, EMI, BIS og Simax. Sem dæmi má nefna heildar­safn sinfónískra verka eftir Grieg með WDR­sinfóníuhljómsveitinni sem og sinfónísk verk Eivinds Groven og öll verk Arne Nordheim fyrir fiðlu og hljómsveit með Sinfóníuhljómsveitinni í Stafangri. Nýlega stjórnaði Aadland Konunglegu fílharmóníuhljómsveitinni í Liverpool á diski þar sem landi hans, trompetleikarinn Tine Thing Helseth, leikur einleik í umritunum á verkum nokkurra þekktra tónskálda.

Utan tónlistarstarfsins er Eivind Aadland mikill áhugamaður um nútímalist og hefur einkasafn hans að geyma fjölbreytt úrval listaverka af ýmsum toga.