EN

Eldbjørg Hemsing

Fiðluleikari

Norski fiðluleikarinn Eldbjørg Hemsing hefur vakið mikla athygli fyrir glæsilegan leik og var nýverið tilnefnd til Spellemann-verðlaunanna í heimalandi sínu. Hún hóf fiðlunám fimm ára, lék fyrir norsku konungsfjölskylduna ári síðar, og hún var 11 ára þegar hún kom fyrst fram sem einleikari með Fílharmóníusveitinni í Bergen. Hún lék við afhendingu Friðarverðlauna Nóbels árið 2012 og hefur komið fram með fjölda virtra hljómsveita víða um heim.

Hemsing hefur hljóðritað þrjá geisladiska fyrir sænska forlagið BIS, meðal annars nærri gleymdan fiðlukonsert eftir norska tónskáldið Hjalmar Borgstrøm sem hlotið hefur frábæra dóma. Á sama diski er einnig að finna túlkun hennar á fiðlukonserti nr. 1 eftir Shostakovitsj, sem hún mun flytja í Eldborg. Hún kemur nú fram á Íslandi í fyrsta sinn.