EN

Elim Chan

Hljómsveitarstjóri

Elim Chan hefur skotist upp á stjörnuhimin tónlistarinnar með ógnarhraða undanfarin ár. Hún er fædd í Hong Kong en stundaði háskólanám í Bandaríkjunum og hugðist í fyrstu verða læknir. Hún fékk tækifæri til að stjórna hljómsveit á öðru ári sínu í Smith College og svo fór að hún útskrifaðist með tónlistargráðu og lauk DMA-gráðu frá Michigan-háskóla árið 2015.

Árið 2014 varð Chan fyrst kvenna til að hljóta fyrstu verðlaun í Donatella Flick-stjórnandakeppninni í Lundúnum og þannig vakti hún heimsathygli. Hún var um skeið „Dudamel Fellow“ hjá Fílharmóníusveit Los Angeles og hefur meðal annars stjórnað Konzerthaus-hljómsveitinni í Berlín, Concertgebouw-hljómsveitinni í Amsterdam og Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar, auk þess sem hún stjórnaði tónleikum BBC-þjóðarhljómsveitarinnar í Wales á Proms-tónlistarhátíðinni í Royal Albert Hall. Hún er aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Antwerpen og aðalgestastjórnandi Skosku þjóðarhljómsveitarinnar.