EN

Elizabeth Watts

Söngkona

„Ein sú fegursta rödd sem komið hefur frá Bretlandi í heila kynslóð“ sagði gagnrýnandi International Record Review um sópransöngkonuna Elizabeth Watts. Hljóðritanir hennar hafa hlotið mikið lof, til dæmis diskur með söngvum eftir Schubert fyrir SONY, sem var valinn einn af diskum mánaðarins hjá Gramophone, sem og diskar með tónlist eftir Bach, Mozart og Scarlatti fyrir Harmonia Mundi.

Watts hóf tónlistarferil sinn sem kórsöngvari við dómkirkjuna í Norwich og stundaði nám í fornleifafræði við háskólann í Sheffield áður en hún hóf nám við Royal College of Music í Lundúnum. Hún hlaut Kathleen Ferrier-verðlaunin árið 2006 og ljóðasöngsverðlaunin í „BBC Singer of the World“-keppninni árið 2007. Hún var um skeið fastráðin við Ensku þjóðaróperuna og hefur sungið stór hlutverk í óperum Mozarts m.a. við Covent Garden-óperuna. Auk þess hefur hún haldið einsöngstónleika í Wigmore Hall og á Aldeburgh-hátíðinni, sungið í Concertgebouw í Amsterdam og Tonhalle í Zürich. Hún hefur sungið sálumessu Mozarts með Lundúnasinfóníunni, C-moll messu Mozarts með Akademie für Alte Musik í Berlín og Þýsku sálumessu Brahms með Fílharmóníuhljómsveit Lundúna. Þá hefur hún hljóðritað bæði Jóhannesar- og Mattheusarpassíur Bachs með The Academy of Ancient Music undir stjórn Richards Egarr.