EN

Elmar Gilbertsson

Einsöngvari

Elmar Gilbertsson útskrifaðist frá Söngskóla Sigurðar Demetz vorið 2007. Eftir það lá leiðin til Amsterdam í Hollandi þar sem hann lagði stund á mastersnám í óperusöng við Tónlistarháskólann í Amsterdam og Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag. Kennarar hans þar voru Jón Þorsteinsson og Peter Nilson. Eftir námið var Elmar tekin inn í Óperustúdíó Hollensku óperunnar og starfaði þar í tvö ár. Þá fékk hann fasta stöðu og síðar gestaráðningu hjá óperunni í Maastricht í Hollandi þar sem hann hefur starfað mikið síðustu ár jafnhliða störfum víðsvegar um Evrópu. Ber þar helst að nefna óperuhúsin í Nantes, Toulon og Aix en Provence í Frakklandi, Bochum í Þýskalandi, Brno í Tékklandi sem og Barbican Centre í London og Ríkisóperuna í Amsterdam.

Elmar hefur á ferli sínum sungið og túlkað allnokkrar af persónum óperubókmenntanna. Þar á meðal Tamino í Töfraflautunni, Don Ottavio í Don Giovanni, Ferrando í Così fan tutte, Alfred í Leðurblökunni, Elvino í La Sonnambula, Nerone í Krýningu Poppeu og Kudrjaš í Kát`a Kabanová eftir Janácek. Elmar hefur einnig sungið hlutverk prinsins í Öskubusku eftir Rossini hjá Maastricht-óperunni, hlutverk Mímis í Rínargulli Wagners á hinni virtu Ruhrtriennale listahátíð í Þýskalandi og hlutverk Hertogans af Mantua í Rigoletto eftir Verdi. 

Elmar hlaut Grímuverðlaunin í flokknum söngvari ársins fyrir hlutverk Daða Halldórssonar í óperunni Ragnheiður eftir Gunnar Þórðarson sem sett var upp hjá Íslensku Óperunni snemma árs 2014. Elmar hlaut einnig Íslensku tónlistarverðlaunin 2014 sem söngvari ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar. Elmar hefur á síðustu árum komið víða fram í óperuhúsum og tónleikasölum í Evrópu og hefur nýverið m.a. komið fram í Maastricht-óperunni og í Toulon-óperunni í Frakklandi. Hann söng hlutverk Lenskys í uppfærslu Íslensku óperunnar á Evgení Onegin haustið 2016 og hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir túlkun sína. Árið 2018 gekk Elmar til liðs við óperuna í Stuttgart í Þýskalandi, hvar hann starfar mestmegnis í dag.

Elmar hefur margsinnis komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, nú síðast á Klassíkinni okkar – Leikhúsveislu fyrr í mánuðinum.