EN

Emanuel Ax

Píanóleikari

Emanuel Ax hefur um áratuga skeið verið einn virtasti píanóleikari Bandaríkjanna. Hann hefur hlotið sjö Grammy-verðlaun og fjölda annarra viðurkenninga, en á milli þess sem hann leikur á tónleikum um allan heim er hann prófessor í píanóleik við Juilliard-skólann í New York.

Ax fæddist í Lvov í Póllandi en fluttist með fjölskyldu sinni til Winnipeg í Kanada þegar hann var á barnsaldri. Hann náði heimsathygli þegar hann hlaut fyrstu verðlaun í Rubinstein-píanókeppninni árið 1974 og síðan hefur ferill hans verið samfelld sigurganga. Meðal nýjustu verkefna hans eru tónleikaferð um Evrópu með Fílharmóníusveit Vínarborgar og Bernard Haitink, ferð um Asíu með Sinfóníuhljómsveit Lundúna og Sir Simon Rattle, og tónleikar með Leonidas Kavakos og Yo-Yo Ma í Carnegie Hall. Meðal þeirra tónskálda sem samið hafa verk fyrir Ax má nefna John Adams og Krzysztof Penderecki. Hann hefur hjóðritað fyrir Sony Classical frá árinu 1987, bæði einleiksdiska og kammermúsík með Yo-Yo Ma, Yefim Bronfman og Itzhak Perlman. Þá hefur hann hlotið nafnbót heiðursdoktors við Yale- og Columbia-háskólana.