EN

Emilía Rós Sigfúsdóttir

Flautuleikari

Flautuleikarinn Emilía Rós Sigfúsdóttir hefur á undanförnum árum skipað sér í röð fremstu hljóðfæraleikara sinnar kynslóðar á Íslandi. Leikur hennar hefur hlotið afar góða dóma síðastliðin ár en diskur hennar Portrait hlaut lofsamlega dóma í tímaritinu Gramophone og einnig fengu tónleikar hennar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands fimm stjörnu dóm í Fréttablaðinu fyrir flutning á flautukonserti Ibert árið 2016. Emilía Rós hefur víða komið fram sem einleikari, en hún hefur komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Ungfóníu, Trinity College of Music Symphony Orchestra og Orquestra Sinfonica Nacional í Brasilíu sem og á tónleikum í Queen Elizabeth Hall, St. John's Smith Square og St James's Church í London, Bozar tónleikahöllinni í Brussel, á Listahátíð á Möltu og farið í tónleikaferð um austurströnd Kanada. Undanfarna mánuði hefur hún ferðast um Evrópu og leikið víða á tónleikum með Björk og flautuseptettinum Viibra.

Emilía Rós er ötull þátttakandi í flutningi kammertónlistar en hún er ein af stofnendum Elektra Ensemble, Tónlistarhóps Reykjavíkur 2009, og kemur reglulega fram með þeim á tónleikum. Hún leikur reglulega með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Hljómsveit Íslensku óperunnar. Emilía Rós hefur hlotið margs konar viðurkenningar fyrir leik sinn. Meðal annars vann hún til þriðju verðlauna í einleikarakeppni Trinity College of Music árið 2004, árið 2007 vann hún flautuverðlaunin sem og kammertónlistarverðlaunin sem veitt eru árlega í Royal College of Music og 2013 hlaut geisladiskur hennar, Portrait, þrjár tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna, þar á meðal sem hljómplata ársins í flokki sígildrar- og samtímatónlistar. Næsta vetur kemur út nýr diskur hennar með flautusónötum eftir Sergei Prokofiev og Joseph Jongen. Emilía Rós lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2003, Postgraduate Diploma með hæstu einkunn frá Trinity College of Music 2004 og Master of Music frá Royal College of Music 2009.