Fabio Biondi
Hljómsveitarstjóri
Ítalski fiðluleikarinn og hljómsveitarstjórinn Fabio Biondi er meðal þekktustu tónlistarmanna samtímans á sviði tónlistar frá barokk- og klassíska tímanum.
Hann fæddist í Palermo á Sikiley árið 1961 og var orðinn ellefu ára gamall þegar hann kynntist fiðlunni, en var ótrúlega fljótur að ná tökum á hljóðfærinu. Á sautjánda ári stóð hann á sviðinu í Musikvereinssalnum í Vínarborg og lék fiðlukonserta Bachs og hefur síðan þá leikið með helstu barokkhljómsveitum, þar á meðal La Capella Reial, Musica Antiqua Wien, Seminario Musicale, La Chapelle Royale og Les Musiciens du Louvre. Árið 1990 stofnaði hann hljómsveitina Europa Galante sem sérhæfir sig í barokktónlist og leiðir hann hópinn sem hefur leikið inn á fjölda geisladiska. Meðal útgefinna verka má nefna Il cimento dell'armonia e dell'inventione sem inniheldur 12 konserta Vivaldis, þar á meðal Árstíðirnar fjórar, óperu Vivaldis, Bajazet, konserta Arcangelos Corelli (Concerti Grossi),verk eftir Alessandro Scarlatti og Georg Friedrich Händel. Þá hefur hann hljóðritað úrval af verkum 18. aldar samlanda sinna (Antonion Vivaldi, Francesco Maria Veracini, Pietro Locatelli, Giuseppe Tartini) sem og sónötur eftir Johann Sebastian Bach, Franz Schubert og Robert Schumann. Biondi var listrænn stjórnandi barokktónlistar hjá Sinfóníuhljómsveitinni í Stavanger frá 2005–2016.
Fabio Biondi kemur reglulega fram sem einleikari og stjórnandi með hljómsveitum á borð við New York fílharmóníuna, Chicagosinfóníuna, Mahler kammerhljómsveitirnar og Mozarthljómsveitina í Salzburg svo nokkrar séu nefndar. Þá hefur hann látið til sín taka á óperusviðinu og stjórnað í þekktum evrópskum óperuhúsum.
Sem fiðluleikari hefur hann gert garðinn frægan sem óaðfinnanlegur virtúós (The Guardian) og komið fram í helstu tónleikasölum svo sem Carnegie Hall í New York, Auditorio Nacional de Música í Madrid og Cité de la Musique í París. Árið 2018 var hann verðlaunaður af Gramophone og BBC Music Magazine fyrir hljóðritanir sínar af sónötum Paganinis fyrir fiðlu og gítar með gítarleikaranum Giangiacomo Pinardi.
