EN

Gissur Páll Gissurarson

Einsöngvari

Tenórsöngvarinn Gissur Páll Gissurarson á langan feril að baki en aðeins ellefu ára þreytti hann frumraun sína í titilhlutverkinu í Oliver Twist. Árið 2001 hóf hann nám við Conservatorio G.B. Martini í Bologna á Ítalíu.

Fyrsta óperuhlutverk Gissurar á Ítalíu var Ruiz í óperunni Il Trovatore í Ravenna. Árið 2004 tók hann þátt í uppfærslu á Così fan tutte, undir stjórn Claudio Abbado í Ferrara, Reggio Emilia og Modena. Gissur Páll hefur m.a. sungið hlutverk Danilos í Kátu ekkjunni, hlutverk Nemorinos í Ástardrykknum og Almaviva í Rakaranum í Sevilla. Hann hefur einnig sungið í uppfærslum á Werther eftir Massenet og Les Mammelles de Tiresias eftir Poulenc svo fátt eitt sé nefnt.

Árið 2006 tók Gissur Páll þátt í tveimur alþjóðlegum söngvarakeppnum á Ítalíu og vann til verðlauna í þeim báðum. Í desember 2010 kom út fyrsta sólóplata hans, Ideale, sem hefur verið mjög vel tekið. Árið 2014 hljóðritaði Gissur tólf þekktar ítalskar óperuaríur með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Petris Sakaris.

Gissur Páll söng hlutverk Rodolfos í uppsetningu Íslensku óperunnar á La Bohème vorið 2012 og var í kjölfarið tilfnefndur til Grímunnar sem söngvari ársins. Gissur Páll hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2012 sem klassíski söngvari ársins

Á síðastliðnum árum hefur Gissur Páll komið fram í Ástardrykk Donizettis sem settur var upp í Rotterdam í Hollandi, á tónleikum í Westphalia í Þýskalandi og tónleikaröð í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum auk óperuhátíðar í Eistlandi, sem og fjölmargra tónleika og annarra verkefna á Íslandi.