EN

Hamrahlíðarkórinn

 

Hamrahlíðarkórinn var stofnaður árið 1982 til þess að gefa fyrrum nemendum í Kór Menntaskólans við Hamrahlíð tækifæri til að stunda áfram kórstarf að lokinni útskrift frá skólanum. Kórinn hefur alla tíð verið í fararbroddi íslenskra æskukóra og hlaut árið 1984 fyrstu verðlaun í flokki æskukóra í kórakeppni evrópskra útvarpsstöðva, Let the peoples sing. Fjölmörg tónskáld hafa samið verk fyrir kórinn og hafa tíu geisladiskar komið út með söng hans. Hamrahlíðarkórinn var valinn flytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2002 og hefur tvisvar verið tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs. 

Hamrahlíðarkórinn hefur átt farsælt samstarf við Sinfóníuhljómsveit Íslands um langt árabil, meðal annars við flutning á Níundu sinfóníu Beethovens, Sálumessu Mozarts, Dafnis og Klói eftir Ravel, Sálmasinfóníu Stravinskíjs og Klassíkin okkar árið 2018. Þorgerður Ingólfsdóttir hefur verið stjórnandi kórsins frá upphafi.