EN

Hannu Lintu

Hljómsveitarstjóri

Hannu Lintu fæddist í Finnlandi árið 1967. Hann er nú aðalstjórnandi Finnsku útvarpshljómsveitarinnar í Helsinki, en hefur áður gegnt slíkri stöðu við Fílharmóníuhljómsveitina í Tampere auk þess sem hann var aðalgestastjórnandi Írsku þjóðarsinfóníuhljómsveitinnar.

Lintu lærði selló- og píanóleik við Sibeliusar-akademíuna í Finnlandi og hljómsveitarstjórn hjá Eri Klas og Jorma Panula. Árið 1994 bar hann sigur úr býtum í Norrænu stjórnandakeppninni í Bergen og síðan hefur hann stjórnað mörgum helstu hljómsveitum Norðurlanda, m.a. Fílharmóníunni í Bergen, Dönsku útvarpshljómsveitinni og Konunglegu fílharmóníunni í Stokkhólmi. Hann hefur auk þess stjórnað víða í Bandaríkjunum, meðal annars Fílharmóníuhljómsveitinni í Los Angeles, og sinfóníuhljómsveitunum í Baltimore, Pittsburgh, St. Louis og Washington D.C. Nýverið stjórnaði hann í fyrsta sinn Orchestre de Paris og Sinfóníuhljómsveitinni í Boston.

Lintu hefur stjórnað ótal óperuuppfærslum, m.a. Carmen eftir Bizet, Wozzeck eftir Berg og Tristan og Ísold eftir Wagner við Finnsku þjóðaróperuna, en hann mun taka við stöðu aðalstjórnanda óperuhússins árið 2022. Lintu hefur hljóðritað fyrir Ondine, Hyperion og Naxos, meðal annars tónlist eftir Einojuhani Rautavaara og Kaiju Saariaho, en einnig verk eftir Mendelssohn, Tsjajkovskíj og Messiaen. Einn diska hans var tilnefndur til Grammy-verðlauna árið 2011 og tveir hafa verið tilnefndir til Gramophone-verðlauna. Lintu hefur stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands nokkrum sinnum áður. Hann stjórnaði m.a. flutningi á öllum sinfóníum Beethovens á fyrsta starfsári Hörpu við feiknagóðar undirtektir.