Herdís Anna Jónasdóttir
Einsöngvari
Herdís Anna Jónasdóttir stundaði söngnám við Tónlistarskólann á Ísafirði, Listaháskóla Íslands og Hanns Eisler tónlistarháskólann í Berlín. Að loknu námi var hún ráðin til eins árs að óperustúdíói Óperunnar í Zürich. Árin 2013–2018 var hún fastráðin við Ríkisóperu Saarlands, en er nú sjálfstætt starfandi og býr í Reykjavík. Herdís hefur tekið þátt í fjölmörgum óperu- og söngleikjauppfærslum í Þýskalandi, Íslandi og Sviss. Meðal helstu hlutverka eru Adina (Ástardrykkurinn), Adele (Leðurblakan), Zerlina (Don Giovanni), Drottningin frá Schemacha (Gullni haninn), Maria (West Side Story), Eliza (My Fair Lady), Nannetta (Falstaff) og Oscar (Grímudansleikur). Á Íslandi hefur hún tvívegis sungið með Íslensku óperunni, Musettu í La boheme og í fyrra Víólettu Valery í La traviata. Herdís hefur einnig margsinnis komið fram á tónleikum, s.s. með Kammersveit Reykjavíkur, Caput-hópnum, á ýmsum tónlistarhátíðum, með Saarlensku ríkishljómsveitinni, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Færeyja og Sinfóníuhljómsveitinni í Canberra, Ástralíu, sem og með minni kammerhópum og hljóðfæraleikurum, einnig í útvarpi og sjónvarpi.
Herdís Anna hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir söng sinn, m.a. hlaut hún Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir söng ársins 2022, Grímuna fyrir túlkun sína á Víólettu árið 2019 og hún var valin Söngkona ársins í Saarbrücken vorið 2016.
Á ferli sínum erlendis hefur Herdís öðlast mikla reynslu í flutningi á margs konar tónlist, jafnt ljóðasöng sem óperu, kirkjutónlist og belcanto, söngleikjum og samtímatónlist. Fyrir jólin 2021 kom út fyrsta sólóplata Herdísar Nýir vængir, hvar hún, ásamt Bjarna Frímanni, flytur íslensk sönglög, gömul og ný.