Herdís Anna Jónasdóttir
Einsöngvari
Herdís Anna hefur á ferli sínum öðlast mikla reynslu í flutningi á margs konar tónlist, jafnt ljóðasöng sem óperu, kirkjutónlist og belcanto, söngleikjum og samtímatónlist. Hún er búsett í Reykjavík og starfar sem söngkona og kennari.
Herdís bjó og starfaði lengi í Þýskalandi, en hefur víða komið fram á ýmsum tónlistarhátíðum og í útvarpi og sjónvarpi, bæði hér heima og erlendis. Þar á meðal með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, Caput-hópnum, Sinfóníuhljómsveit Færeyja og Sinfóníuhljómsveitinni í Canberra, Ástralíu. Þá hefur Herdís sungið við ýmis óperuhús í Þýskalandi.
Fyrsta sólóplata Herdísar Nýir vængir kom út 2021, hvar hún ásamt Bjarna Frímanni Bjarnasyni flytur íslensk sönglög. Síðastliðið vor söng Herdís öll þrjú hlutverkin í frumflutningi óperunnar Óperan hundrað þúsund eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur og Kristínu Eiríksdóttur. Herdís stundaði söngnám við Tónlistarskólann á Ísafirði, Listaháskóla Íslands, Hanns Eisler tónlistarháskólann í Berlín og við óperustúdíó Óperunnar í Zürich. Árin 2013–2018 var hún fastráðin við Ríkisóperu Saarlands, Þýskalandi.
Herdís Anna hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir söng sinn, m.a. var hún valin Söngkona ársins í Saarbrücken vorið 2016. Þá hlaut hún Grímuna fyrir túlkun sína á Víólettu í La Traviata við Íslensku óperuna árið 2019 og Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir söng ársins 2022.