EN
  • Hermann_Baumer

Hermann Bäumer

Hljómsveitarstjóri

Þýski hljómsveitarstjórinn Hermann Bäumer er aðalstjórnandi Fílharmóníuhljómsveitarinnar í Mainz og stjórnar einnig óperuhljómsveit borgarinnar. Hann hefur hlotið mikið lof fyrir starf sitt í Mainz en hann hefur einnig stjórnað fjölda annarra hljómsveita, m.a. Deutsche Kammerphilharmonie Bremen, Útvarpshljómsveitunum í Berlín og Bæjaralandi, Bæversku þjóðarhljómsveitinni í München, og Útvarpshljómsveitinni í Helsinki. Þá hefur hann stjórnað við Komische Oper í Berlín, m.a. Aufstieg und Fall der Stadt Mahagonny eftir Kurt Weill.

Bäumer er einnig framúrskarandi básúnuleikari. Hann hóf tónlistarferil sinn sem bassabásúnuleikari í Sinfóníuhljómsveitinni í Bamberg en árið 1992 hlaut hann fastráðningu við Fílharmóníuhljómsveit Berlínar. Hann hefur hlotið mikið lof fyrir hljóðritanir sínar bæði sem básúnuleikari og hljómsveitarstjóri, og má nefna að hann hlaut verðlaun þýskra tónlistargagnrýnenda árið 2010.

Bäumer er mikill áhugamaður um tónlist Jóns Leifs og stjórnaði heildarfrumflutningi og hljóðritun á Eddu I með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2006. Hann stjórnaði Sinfóníuhljómsveitinni fyrst árið 2001 á tónleikum af nokkuð öðrum toga: þegar Botnleðja og Quarashi komu fram með SÍ í Háskólabíói. Einnig stjórnaði hann Carmina Burana eftir Carl Orff í Hörpu árið 2013 en þar komu fram Kór Áskirkju og Söngsveitin Fílharmónía ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands.