EN

Hörður Áskelsson

Kórstjóri

Hörður Áskelsson hefur verið organisti og kantor Hallgrímskirkju frá því hann lauk framhaldsnámi í Þýskalandi árið 1982. Hann hefur gegnt lykilhlutverki í uppbyggingu listalífs kirkjunnar og stóð meðal annars að stofnun Listvinafélags Hallgrímskirkju, Kirkjulistahátíðar og Alþjóðlegs orgelsumars. Árið 1982 stofnaði hann Mótettukór Hallgrímskirkju og kammerkórinn Schola cantorum árið 1996. Með kórunum hefur hann flutt flest helstu verk kórbókmenntanna auk þess sem hann hefur stjórnað frumflutningi margra verka fyrir kór og hljómsveit sem íslensk tónskáld hafa skrifað á undanförnum árum. 

Hörður hefur hlotið margsháttar viðurkenningar fyrir framlag sitt til tónlistarlífs á Íslandi, þ.á m. Íslensku tónlistarverðlaunin og Menningarverðlaun DV árið 2002, Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 2004 og Íslensku bjartsýnisverðlaunin árið 2006. Þá var hann borgarlistamaður Reykjavíkur 2002. Hörður hefur kennt orgelleik og kórstjórn við Tónskóla þjóðkirkjunnar og á árunum 1985–1995 var hann lektor í litúrgískum söngfræðum við guðfræðideild Háskóla Íslands. Hörður var tónlistarstjóri hátíðarhalda í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi árið 2000 og hann gegndi embætti söngmálastjóra þjóðkirkjunnar árin 2005–2011. Hörður hefur með kórum sínum tekið þátt í flutningi og hljóðritunum Sinfóníuhljómsveitar Íslands fyrir BIS á öllum verkum Jóns Leifs fyrir kór og hljómsveit, sem útgáfufyrirtækið hefur gefið út, síðast á Eddu II árið 2019.