EN

Ingibjörg Ragnheiður Linnet

Trompetleikari

Ingibjörg Ragnheiður Linnet hóf trompetnám níu ára gömul í Skólahljómsveit Kópavogs undir leiðsögn Snorra Sigurðarsonar. Árið 2013 hóf hún nám við Tónlistarskólann í Reykjavík undir handleiðslu Ásgeirs H. Steingrímssonar og útskrifaðist þaðan með framhaldspróf árið 2017. Samhliða trompetnáminu stundaði Ingibjörg einnig píanónám, fyrst hjá Brynhildi Ásgeirsdóttur í Tónlistarskóla Kópavogs og síðar hjá Svönu Víkingsdóttur í Tónlistarskólanum í Reykjavík og lauk framhaldsprófi á píanó árið 2018. Haustið 2019 hóf hún trompetnám í Konunglega Tónlistarháskólanum í Stokkhólmi hjá Joakim Agnas og Michael Streijffert, en er nú undir handleiðslu Tom Poulson.

Ingibjörg lék með Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands á árunum 2012–2016 og nú síðast 2021. Einnig hefur hún leikið með Orkester Norden, Sinfóníuhljómsveit Unga fólksins og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. Árið 2017 lék hún einleik með hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík.